Að jafnaði eru annað hvort 7 eða 9 dómarar sem dæma fitnesskeppnir. Hver og einn dómari gefur hverjum keppanda sæti út frá ákveðnum forsendum sem liggja á bak við dóminn eftir því hvort um er að ræða fitness, módelfitness eða vaxtarrækt. Of langt mál er að gera grein fyrir dómforsendum, en annað mál og einfaldara er að útskýra hvernig farið er með dómana. Hægt er að lesa grein um dómforsendur á fitness.is. Lykilatriði í meðferð stigavarðar á dómum er að þegar dómararnir hafa gefið hverjum keppanda sæti er hæsta og lægsta sæti hvers keppanda strikað út ef sjö dómarar eru að dæma, en tvö hæstu og tvö lægstu ef dómararnir eru níu. Þetta er gert til þess að koma í veg fyrir að dómari sem setur keppanda í óeðlilega hátt eða lágt sæti hafi áhrif. Ef einhver dómari dæmir þannig allt öðruvísi en hinir dómararnir gerir þetta kerfi það að verkum að hann hefur ekki áhrif. Ef einn dómari setur t.d. keppanda í fyrsta sæti, en allir hinir dómararnir eru með hann í öðru sæti, er fyrsta sætið strikað út og er ekki tekið með í reikninginn. Sömuleiðis er tekinn út einn annar dómur í annað sætið. Þannig gildir alltaf meðaltalið. Keppandi sem allir sjö dómararnir setja í fyrsta sæti fær þannig bara fimm stig þar sem tveir dómar gilda ekki. Keppandi sem fjórir dómarar setja í annað sæti, einn í fjórða sæti og einn í fyrsta sæti fær átta stig vegna þess að fjórða og fyrsta sætið er strikað út.

Lykilatriði í meðferð stigavarðar á dómum er að þegar dómararnir hafa gefið hverjum keppanda sæti er hæsta og lægsta sæti hvers keppanda strikað út ef sjö dómarar eru að dæma, en tvö hæstu og tvö lægstu ef dómararnir eru níu.

Þegar dómari biður um samanburð á keppendum eru yfirleitt ekki teknir færri en þrír í einu fram í samanburð, helst fimm. Sá misskilningur er gjarnan í gangi að keppendur sem eru í efstu sætum séu alltaf kallaðir fyrst fram. Það þarf alls ekki að vera. Fyrsti samanburðurinn er byggður á ósk eins af þessum sjö dómurum og þarf ekki endilega að endurspegla það sem hinir dómararnir eru að hugsa. Ekkert samráð er meðal dómara þar sem þeim er óheimilt að ræða við aðra dómara um ákveðna keppendur eða hafa áhrif á aðra dómara. Hver og einn samanburður sýnir því eingöngu það sem einn ákveðinn dómari er að hugsa.

Ef marka má tölvupósta sem yfirdómari fær að loknu hverju móti ríkir sá misskilningur meðal margra keppenda að halda að dómarar skrifi hjá sér hinar ýmsu athugasemdir um keppendur, fyrir hvað þeir séu dregnir niður, hvað mætti betur fara hjá keppandanum o.s.frv. Raunin er sú að dómarar gefa hverjum keppanda eingöngu sæti innbyrðis í flokknum. Þetta kerfi hefur verið í notkun hjá Alþjóðasambandi líkamsræktarmanna í áratugi og hefur reynst afar vel. Það þykir réttlátt og er gott við að eiga hvað það varðar að auðvelt er fyrir yfirdómara að sjá hvort einhver dómari sé að dæma óeðlilega miðað við hina dómarana og dómar sem víkja frá meðaltalinu koma ekki niður á keppandanum.