Kristín Kristjánsdóttir sigraði alþjóðlega mótið IFBB International Austria Cup sem fór fram í Austurríki í dag. Þetta er í fyrsta skipti sem íslendingur sigrar heildarkeppni á alþjóðlegu líkamsræktarmóti. Keppt var í opnum flokki og voru 15 keppendur frá hinum ýmsu löndum í flokki Kristínar.Kristín keppti um síðustu helgi á Íslandsmótinu í fitness og sigraði þar sinn flokk. Þessi árangur Kristínar markar ákveðin tímamót í íslenskri líkamsræktarsögu þar sem þetta er fyrsti heildarsigur íslendings á alþjóðlegu móti. Þetta verður því að teljast frábær árangur.

Kristín er að vonum ánægð með þennan árangur og þegar náðist tal af henni fyrir skemmstu var hún ásamt Sigurði Gestssyni á Sushi stað að halda upp á sigurinn. Einhver hefði nú haldið upp á tilefnið á hitaeiningaríkari veitingastað, en Kristín ætlar greinilega að halda sig á jörðinni.

Myndir frá mótinu eru væntanlegar og munum við birta þær hér innan skamms. 

Fjöldi íslendinga er að keppa í dag á Oslo Grand Prix mótinu og fyrstu fregnir herma að þeim gangi sömuleiðis mjög vel. Úrslit hafa ekki borist á þessari stundu frá Noregi en við birtum þau hér um leið og þau berast. 

kv.

Einar Guðmann