Alexandra Sif Nikulásdóttir

Alexandra Sif Nikulásdóttir hefur keppt í módelfitness og fitness með góðum árangri. Við báðum hana um að segja lesendum Fitnessfrétta frá sér.

Ég er 23 ára, fædd og uppalin í Grafarvoginum og bý nú í Garðabænum ásamt kærastanum mínum og litla hundinum okkar, honum Bamba.

Ég útskrifaðist úr Fjölbraut við Ármúla 2009 og fór eftir það beint að vinna sem verslunarstjóri í Make Up Store, þar vann ég sem förðunarfræðingur. Núna í haust ákvað ég þó að breyta til og útskrifaðist sem einkaþjálfari og hóf störf hjá þjálfara mínum Katríni Evu og vinnum við ásamt manninum hennar að fjarþjálfuninni betriarangur.is. Þar vinn ég nú ásamt því að farða af og til.

Alls ekki leiðinlegt að fá að vinna við tvo áhugamál og var þvílíkur heiður að fá að vinna með manneskjunni sem ég hefur kennt mér allt sem ég veit í þessum bransa. Sömuleiðis það að sjá árangur hjá öðrum sem þú hefur átt þátt í er alveg ólýsanleg tilfinning.

Ég keppti fyrsta skiptið í módelfitness á Bikarmeistarmótinu í nóvember 2010, það var þó alls ekki planið hjá sjálfri mér og stefndi ég fyrst að því að keppa um páskana 2011. Þegar ég mætti í fyrstu mælinguna til Katrínar var ekki aftur snúið, hún hafði trú á að ég gæti keppt fyrr svo ég ákvað að slá til. Þegar páskarnir svo komu var það í þriðja skiptið sem ég steig upp á svið.

Þetta hafði lengi verið draumur hjá mér sem ég sá ekki fram á að yrði að veruleika.

Ég hef alltaf verið að æfa einhverjar íþróttir og var þar lengst af í listskautum en það voru ófá skiptin sem ég fór á fitness.is að skoða myndir frá mótum og láta mig dreyma.

Ég hef núna keppt 5 sinnum frá því að ég byrjaði, þrátt fyrir stuttan tíma. Eftir að ég keppti í fyrsta skipti byrjaði ég að byggja mig upp og var Katrín þá oft að benda mér á að keppa í flokki sem kallast bikini út í Bandaríkjunum á móti sem heitir Arnold Classic, þar keppti hún árið 2010 og vann sinn flokk.

Þar keppti ég í annað skipti og komst í topp tíu í mínum flokki. Mánuði seinnna keppti ég hér heima á Íslandsmeistaramótinu í módelfitness og lenti í 4.sæti. Eftir sumarið var stefnan svo tekin á bikiniflokk á Arnold Classic Europe, þar keppti ég í og náði topp 15, þá fannst mér að bikini flokkurinn væri ekki alveg fyrir mig og hafði ég fengið ábendingar um að færa mig upp um flokk, sem ég svo gerði í nóvember, þó var ég innilega ekki að þora að taka svona stórt stökk. Að lokum skráði mig á síðasta snúning og keppti í fitnessflokki í nóvember 2011, ári eftir að ég byrjaði og vann þar minn fyrsta sigur.

Nú stefni ég að því að fara á Arnold í Bandaríkjunum og keppa þar 1.mars, í þetta skiptið í flokkinn fyrir ofan sem líkist fitnessflokki hér heima og kallast figure.

Hvað æfngarnar varðar er ég nýbúin að færa mig yfir í Sporthúsið þar sem ég hef verið að æfa með Katrínu, en svo á hún von á litlum erfingja núna í sumar. Ég lyfti þar sex sinnum í viku og bæti stundum við morgunbrennslu þegar stefnan er sett á mót.

Ég er gríðarlega öguð og metnaðarfull sem getur verið kostur og stundum ókostur. Þar af leiðandi er ég mjög öguð í mataræðinu, hvort sem ég stefni á mót eða ekki. Er samt sem áður algjör sælkeri en held mig við einn nammidag í viku og passa svo að borða ávallt hollt og reglulega yfir daginn.