Það eru til ýmsar gerðir af fitumælum. Sumir mælar eru einfaldlega klemmur sem notast við ákveðnar formúlur til þess að mæla húðfitu og út frá þeim er hægt að finna út fituhlutfall líkamans. Aðrir mælar nota rafleiðni til þess að finna út hlutfallið eftir að búið er að slá inn upplýsingar um aldur, hæð, þyngd, kyn o.s.frv. Vönduðustu mælingarnar er hinsvegar erfitt að framkvæma enda byggjast þær á því að vigta og mæla menn í vatni. Aðstaða til þess að mæla fituhlutfall í umræddum vatnstönkum er einungis til á nokkrum stöðum í heiminum. Mælingar í þessum vatnstönkum þykja hinsvegar áreiðanlegastar til þess að gefa upp rétta prósentu. Þeir sem hafa prófað mismunandi gerðir af fitumælum hafa eflaust rekið sig á að prósentan sem þeir gefa upp getur verið verulega misjöfn á milli mæla. Það þarf þó ekki að þýða að mælarnir séu ómögulegir. Ekki má gleyma því að fituhlutfallsmæling er yfirleitt ætluð til þess að fylgjast með breytingum á fituhlutfalli. Sé gætt þess að mæla sig ávalt á sama hátt með sama mælinum við sömu aðstæður ætti mælirinn að vera samkvæmur sjálfum sér. Aðal atriðið þegar menn eru að reyna að losna við aukakílóin og vilja fylgjast með breytingum á fituhlutfallinu er að vita hver breytingin er. Það hver prósentan er skiptir í raun ekki máli. Með það í huga er einn mælir ekki endilega betri en annar. Aðal atriðið er að gæta þess að mæla sig reglulega við staðlaðar aðstæður.