Elmar Eysteinsson. Ljósmynd: portrett.is

Í nærmynd er Elmar Eysteinsson forsíðumódel og Íslandsmeistari í fitness.

Aldur og fyrri störf?

Ég er 26 ára gamall íþróttafræðingur og starfa sem einkaþjálfari í nýju Worldclass stöðinni á Selfossi, er ný fluttur hingað eftir að hafa klárað íþrótta- og heilsufræðina frá Háskólanum á Laugarvatni.

Hvaðan ertu?

Ég fæddist á Sauðárkróki en flutti að Hólum í Hjaltadal þegar ég var polli. Ég segi því að ég sé frá Hólum í Hjaltadal. Foreldrar mínir búa núna á Laufhóli í Skagafirði og þar er sveitin mín.

Fjölskylduhagir?

Ég bý með Anítu Rós Aradóttur sem er keppandi í módelfitness. Við keyptum nýlega íbúð hérna á Selfossi og störfum bæði sem einkaþjálfarar í World Class Selfossi.

Helstu áhugamál?

Fitnessið er nr 1,2 og 3 hjá mér og allt sem tengist því. Hver dagur er skipulagður svo mataræði og æfingar geti verið sem allar best svo ég komist skrefi nær markmiðum. Ég hef einnig mjög gaman af því að fara á hestbak þegar ég fer heim í sveitina, fylgi þar að auki talsvert með körfuboltanum, íslensku deildinni og NBA deildinni. Svo fylgist maður með enska boltanum en það hefur reyndar dregið úr því að undanförnu þar sem Man Utd leikirnir eru svo fjandi leiðinlegir. Annar fylgist maður með allskonar öðrum íþróttum,einnig hef gaman af útiveru og ferðalögum.

Uppáhalds tónlist?

Ég er alveg forfallinn rappaðdáandi og hlusta meira og minna bara á rapptónlist, bæði íslenska og erlenda. Rappið er ávallt í heyrnatólnum þegar ég tek æfingar.

Hvernig er fullkomin helgi?

Þó það hafi nú ekki alveg verið komin helgi, þá var helgin í kringum Íslandsmótið nálægt því að vera fullkomin. En ef við tökum dæmi þá gæti það verið heima í sveit, vaknað og brunað á Krókinn og tekin hrikaleg æfing í íþróttahúsinu á Króknum, pínulítið, hrátt en svakalega gott gym. Næst yrði haldið heim og mamma væri búinn að elda hrísgrjónagraut með öllu tilheyrandi. Svo færi maður á hestbak og tæki góðan reiðtúr. Dagurinn mynda enda á að pabbi grillaði einhvern eðal folaldavöðva, gerist ekki mikið betra en það. Svo yrði hent í góða mynd með fjölskyldunni og Anítu Rós. Það hljómar eins og nokkuð fullkominn dagur.

Hver er uppáhalds veitingastaðurinn?

Ég fer allavega lang oftast á Saffran þegar ég er staddur í bænum, þeir eru mjög góðir. Einnig hef ég nýverið verið að fara á nýjan stað sem heitir XO og hann er að koma mjög vel út. Ólafshús á Sauðárkróki kemur líka sterkt inn.

Uppáhalds óholli maturinn?

Heimabökuð Pizza sem við bræður Eyþór og Reynir gerum frá grunni. Það er ekkert sparað þegar við hendum í pizzu, sett vel af áleggi og öðru tilheyrandi.

Uppáhalds holli maturinn?

Grilluð folaldasteik og meðlæti að hætti mömmu og pabba.

Hefur þú lent í vandræðalegu augnabliki?

Ahhh já, höfum við ekki öll lent í nokkrum þannig. Það var ansi vandræðalegt þegar það leið yfir mig í Grunnskólanum á Hólum, eftir að hafa verið sprautaður og svo pissaði ég á mig í þokkabót.

Leikhús eða bíó?

Hef gaman af báðu en fer mikið oftar í bíó. Maður kemur því mikið sjaldnar í verk að drífa sig í leikhús, þannig ég verð að segja bíó.

Uppáhalds íþróttamaður?

Arnold Schwarzenegger, held mikið upp á kallinn enda er maður er búinn að lesa mikið um og eftir hann, horfa á myndbönd og myndir með honum í mörg, mörg ár. Það er mjög hvetjandi að lesa eftir hann bækur og fá að sjá hvernig hann hugsaði og nálgaðist líkamsræktina.

Hvernig er dæmigerður dagur hjá þér?

Eins og þetta er núna vaknar maður kl 05:00 og fer og þjálfar fram um miðjan dag. Þegar maður er í eyðum að morgninum hendir maður sér oft á morgunæfingu og tekur brennslu. Seinnipartinn tek ég síðan aðal lyftingaræfinguna og eyði oftast góðum tíma í hana. Svo er haldið heim í kvöldmat og ef maður er heppinn nær maður að horfa á einn þátt eða lesa aðeins í bók. Þetta er mjög strangt núna þegar maður er að byrja í þessum þjálfara-bransa og mikið að gera. Auk þess sem maður er nýlega búinn í keppnis-undirbúning. Svo er þetta nú aðeins líflegra um helgar.

Uppáhaldsdrykkur?

Broddur úr sveitinni, hann er að gefa alveg svakalega vel.

Hvaða bók ertu með á náttborðinu?

Er ný búinn með Meira blóð eftir Jo Nesbo og var að byrja á Sjötta skotmarkið eftir James Patterson, hún lofar góðu.

Hvað ætlarðu að gera á næstunni?

Það verður tekið á því í ræktinni og unnið að bætingum fyrir næsta mót. Koma okkur betur fyrir hér á Selfossi, svo ætla ég að reyna að komast heim í sveitina í maí til að kíkja aðeins á lömbin og síðast en ekki síst er ferð til Tenerife í júní, sem mig hlakkar mikið til, þar verður gott að slaka á eftir mikla törn á þessu ári.