Nú hefur verið sýnt fram á að reglulegar æfingar stuðli að því að blóðið hlaupi ekki eins mikið í kekki og ef engar æfingar eru stundaðar. Tímaritið „The Medical Journal Circulation“ segir frá rannsókn í Finnlandi sem gerð var á því hvaða áhrif æfingar hefðu á 19 miðaldra menn sem allir höfðu of háan blóðþrýsting. Eftir að hafa stundað rösklega göngu og rólegt skokk fimm daga vikunnar í þrjá mánuði, var greinilegt að blóðið hljóp ekki eins mikið í kekki og hjá þeim sem engar æfingar stunduðu. Þessar niðurstöður bæta við þann þekkingaforða á fyrirbyggjandi aðferðum gegn hjartasjúkdómum sem þegar hefur aflast.