Fyrir fjórum mánuðum átti Karen Lind R. Thompson son. Á meðgöngunni þyngdist hún um 22 kg í það heila eins og hún segir sjálf frá en í dag er hún komin í sömu þyngd og hún var fyrir meðgöngu. Karen er margfaldur Íslandsmeistari í módelfitness og hefur einnig unnið til verðlauna á alþjóðlegum mótum.

Hvað hefurðu helst verið að gera til að koma þér í form eftir að Ríkharð Jaki kom í heiminn?

Það tók mig smá tíma að koma mér af stað eftir að Jaki fæddist. En þegar ég komst af stað var ég ekkert að stressa mig á því að komast í ræktina. Enda langaði mig ekkert að fara neitt mikið frá Jaka litla og nýja hlutverkinu mínu. Svo að um leið og ég fékk leyfi til þess að fara af stað aftur eftir keisarann þá byrjaði ég á stuttum göngutúrum með hundana, sem seinna meir urðu að löngum göngutúrum með barnavagninn.

Ég hafði þyngst um 22 kg á meðgöngunni enda mátti ég ekkert hreyfa mig síðan á 25. viku og ég viðurkenni það alveg að sem manneskja sem er vön að vera að keppa og í formi að mér fannst þetta pínu erfitt að vera orðin svona þung og að missa bara 12 kg af þessum 22 við fæðinguna en auðvitað tekur allt sinn tíma. Eftir að Jaki varð stálpaðari þá fór ég að reyna að mæta í ræktina a.m.k 2-3x í viku en annars var ég ekkert ofsalega að pressa á að ná að mæta þangað en ég pressaði á mig að fara í göngutúr í 40-60 mínútur á hverjum degi sem veður leyfði. Ég setti mér líka skilyrði með göngutúrunum að vera ekki að velja leiðir sem eru allar á jafnsléttu heldur yrðu að innihalda að minnsta kosti eina góða brekku til þess að ganga upp á móti og koma hjartanu almennilega af stað.

Karen var á forsíðunni hjá Fitnessfréttum í lok árs 2015.

Mér finnst líka mikilvægt að vera ekkert að mikla hlutina eða flækja þá of mikið þegar maður er nýbúin að eiga barn. Það getur verið stressandi að pressa á sig að komast í ræktina og vona að allt sé í góðu á meðan. Svo að mér fannst það bara besta lausnin til þess að byrja með að ýta mér frekar af stað í góðan göngutúr, en það er alveg mikilvægt að fara út og hressa sig við í fæðingarorlofinu.

Hvernig hefur mataræðið verið í grófum dráttum?

Matarræðinu hef ég reynt að halda í það minnsta 80% hreinu á hverjum degi. Ég var ekki að stressa mig á hverjum bita sem að ég setti ofan í mig en vildi hvorki vera of strong né of lin við sjálfa mig. Eftir að brjóstagjöfin var komin á gott ról fór ég að vera aðeins harðari við mig. En bæði ég og Ríkharð sambýlismaður minn höfum tekið á matarræðinu saman og því varð þetta mun auðveldara fyrir vikið. Við kaupum því ekkert inn sem á ekki heima inn fyrir okkar varir. En maður finnur alveg fyrir því ef að það eru slæmar nætur að maður vill fá allt sukk í heiminum, en þá hjálpar til að það er ekki til á heimilinu.

Karen Lind var líka á forsíðunni í lok árs 2013.

Týpískur innkaupalisti hjá okkur væri t.d. kjúklingur, egg, ostur, skyr, beikon og bleyjur 🙂 Ég hef sjálf verið að fylgjast með macros yfir daginn hjá mér. Ég hækkaði upp fituhlutfallið sem ég innbyrði ásamt því að lækka niður kolvetnin og hefur það reynst mér mjög vel og hef ég getað sinnt þessu matarræði mjög vel án þess að þurfa að pæla neitt mikið í því.

Týpískur dagur byrjar á t.d. hafragraut eða Weetabix og kaffi. Egg og beikon í hádegismat, hrökkbrauð og eða flatkökur til að snarla á yfir daginn, ávextir og skyr og svo góður kjúklingaréttur um kvöldið og svo protínsjeik og hrökkbrauð í kvöldkaffi. Og auðvitað nóg af vökva alltaf yfir daginn.