Um IFBB á Íslandi
Saga líkamsræktar á Íslandi hefst fyrir alvöru með fyrsta vaxtarræktarmótinu sem haldið var 9. maí 1982 á Broadway. 38 keppendur tóku þátt í þessu fyrsta móti þar á meðal þeir Einar Guðmann og Sigurður Gestsson sem í dag eru forsvarsmenn Alþjóðasambands líkamsræktarmanna – IFBB. Á þessum árum sem liðin eru hafa undirritaðir séð almenningsálitið gagnvart líkamsrækt breytast úr því að vera áhugamál sérvitringa sem gjarnan voru litnir hornauga í það að verða almenn líkamsrækt sem þykir sjálfsögð í dag. Vaxtarræktar- og síðar fitnesskeppnir hafa tvímælalaust átt stóran þátt í þeirri þróun að almenningur stundar nú líkamsrækt í æfingastöðvum. Færa má rök fyrir því að ein helsta heilsurækt íslendinga í dag sé stunduð í æfingastöðvum og keppnisgreinar í líkamsrækt hafa vafalítið átt stóran þátt í að hvetja almenning til að stunda æfingar í æfingastöðvum.
Keppendur eru fyrirmyndir sem hafa mikið að segja
Í gegnum árin hefur Ísland oftar en ekki verið á undan öðrum þjóðum að koma í gegn nýjum keppnisgreinum og flokkum. Við vorum fyrsta þjóðin á norðurlöndum til að halda fitnesskeppni kvenna (1994), og sömuleiðis fyrst til að hefja fitnesskeppni karla með hindranabraut (1999). Þrekmeistarinn kom til sögu 2001 og keppni í módelfitness 2006. Nú hyllir sömuleiðis undir að Alþjóðasambandið hefji keppni í módelfitness. Mörgum hættir til að ætla að oftar en ekki séum við hér á Íslandi að herma eftir öðrum, en raunin er sú að í dag er velgengni líkamsræktar slík hér að aðrar þjóðir horfa ekki síður á það sem við erum að gera.
Margir nýjir keppendur eru að stíga sín fyrstu skref á sviði þessi misserin og fjöldi spurninga vaknar um fyrirkomulag keppna, reglur og annað slíkt. Nýverið fengu undirritaðir spurningalista frá áhugasömum keppendum sem full ástæða þykir til að birta fleirum til gagns og upplýsingar. Hér á eftir koma þær spurningar auk fleiri sem eflaust gagnast mörgum til þess að átta sig á landslaginu sem líkamsrækt á Íslandi býr við.
Undir hvaða IFBB á heimsvísu tilheyrir IFBB á Íslandi?
Það er einungis til eitt alþjóðasamband sem gengur undir merkjum IFBB, International Federation of Body Building and Fitness. Heimasíða þess er ifbb.com og það starfar í um 197 löndum.
Hvar er hægt að nálgast lög og reglur sem IFBB á Íslandi starfar eftir?
Keppendur hafa um árabil nálgast reglur IFBB á vefsíðunni fitness.is. Ef einhver grein um fitness eða vaxtarrækt er lesin birtist valmynd hægra megin sem heitir því frumlega nafni „Keppnis-valmynd“ þar er hægt að smella á „Reglur IFBB“. Hún er á sama stað og skráning á mót fer fram. Þar eru heildarreglurnar og samantekt á reglubreytingum sem gerðar hafa verið undanfarin ár á mismunandi keppnisgreinum. Siðareglurnar er sömuleiðis að finna á fitness.is. Þar er að finna svör við mörgum spurningum, t.d. siðareglum keppenda (IFBB code of ethics). Einnig er hægt að nálgast heildarreglurnar á ifbb.com, en nýlegar breytingar eru ekki endilega uppfærðar á síðunni. Síðan ifbb.com er ekki endilega uppfærð jafn oft og breytingar eru gerðar á reglunum. Nýjustu útgáfur er þó að oftast að finna á fitness.is en reglurnar eiga líka að vera á ifbb.com. Gott er að hafa í huga við lestur þeirra að oftar en ekki eiga sumar reglur við alþjóðleg mót, ekki endilega innanlandsmót.
Hver er forsaga Alþjóðasambandsins hér á landi og hvernig er starfsemi þess í dag?
Fyrsta vaxtarræktarmótið var haldið 1982 og strax undir merkjum IFBB. Til að gera langa sögu stutta þá var sömuleiðis stofnað félagið LVÍ en ekki fór betur en svo að það varð gjaldþrota nokkrum árum síðar og var lagt niður þrátt fyrir að mikill áhugi væri á líkamsrækt í byrjun. Í september 1987 var stofnað annað félag undir merkjum FÁV (Félag áhugamanna um vaxtarrækt). FÁV lagðist af í kringum 1991 þegar það fór sömu leið og LVÍ þegar það varð líka gjaldþrota. Þriðja félagið sem fékk líka nafnið Félag áhugamanna um vaxtarrækt (FÁV) var stofnað 1991 og þriggja manna stjórn þess snérist í nokkur ár um mótahald fyrir Íslandsmótið í vaxtarrækt. Starfsemi þess var endanlega hætt 2004.
Það sem gerist 1994 er að undirritaðir fá áhuga á að halda fitnessmót. Árið 1994 vissi enginn hvað fitness var og þetta var nýyrði (slangur) í íslensku. Á þessum tímapunkti var ekki keppt í fitness innan IFBB – einungis vaxtarrækt. Fyrstu fitnessmótin sem við héldum voru því haldin undir merkjum IFSB sem var þá eingöngu fyrir konur (Ms. Fitness).
Fjórum árum síðar þegar við erum búnir að halda nokkur fitnessmót – árið 1998 – byrjar IFBB að keppa í fitness kvenna, ekki karla. Það ár gera undirritaðir samkomulag við stjórn IFBB (Ben Weider) erlendis sem felst í að við tökum að okkur fitnessmótahald undir merkjum IFBB. Þá var starfandi stjórn FÁV hér á landi sem hefði að öllu eðlilegu átt að sjá um fitnessmótin til viðbótar við vaxtarræktarmótin. Sú stjórn hafði engan áhuga á fitness, bara vaxtarrækt. Við hættum því að halda fitnessmót undir merkjum IFSB í ljósi samkomulags við IFBB. Á þessum tímapunkti var IFBB s.s. tvískipt hérlendis – í fitness og vaxtarrækt.
Árið 1999 byrjum við sömuleiðis að halda fitnessmót fyrir karla. Þá var IFBB ekki með fitnesskeppni karla á dagskrá. Fitnesskeppni karla var þá með hindranabraut hér á landi, en reglur IFBB gerðu ráð fyrir sveigjanleika í „aukalotu“ og því var okkur heimilt að halda þessar keppnir með þessu sniði. Nokkrum árum síðar hóf IFBB líka að keppa í karlaflokki í fitness og þá gátum við farið að senda karla til keppni erlendis. Velgengni í karla-fitness hér á landi og í nokkrum nágrannalöndum vakti athygli á fitness sem karlagrein hjá IFBB á heimsvísu. Sama hefur nú gerst með módelfitness. Undirritaðir héldu fyrstu keppnina í módelfitness hér 2006 en það var ekki fyrr en 2011 sem IFBB tók sambærilega grein, bikini models upp sem formlega keppnisgrein. Norðurlöndin hafa ekki enn tekið þá grein upp, en eiga örugglega eftir að feta í þessi fótspor.
Vaxtarræktin var á vissan hátt stöðnuð þegar þriðja félagið (FÁV) var stofnað 1991 en árið 2004 var starfsemi þessa félags lögð niður eins og áður sagði. Mótahald hafði gengið upp og ofan fjárhagslega og þrátt fyrir að nokkrir áhugasamir keppendur hafi komið að málum þessa félags kom líklega í ljós að það getur verið erfitt að keppa og ætla að standa í mótahaldi á sama tíma. Á þessum tímapunkti (2004) var ljóst að vaxtarrækt á Íslandi var munaðarlaus. Keppendafjöldi orðinn lítill sem enginn og undangengin saga þessara þriggja félaga var ekki beinlínis uppörvandi þó margt gott hafi verið gert. Forseti IFBB (Rafael Santonja) leitar í framhaldinu til okkar og í ljósi velgengni með fitnesskeppnirnar fer hann fram á að við tökum að okkur vaxtarræktina til viðbótar við fitness. Þannig var komið í veg fyrir að keppni í vaxtarrækt legðist af. Mikið og gott samstarf og verðmæt tengsl hafa tekist með okkur og alþjóðasamfélaginu í líkamsrækt og sú staða hefur nú áunnist að okkar bestu keppendur eru gjaldgengir á flest mót á vegum IFBB í dag.
Fyrstu fimm árin sem við héldum fitnesskeppnir var keppendafjöldi á bilinu 7 – 12 keppendur en smátt og smátt urðu vinsældir þessarar keppnisgreinar meiri. Miklu skipti að við hófum strax að senda keppendur erlendis á mót og frá upphafi hefur sú stefna ráðið för að nota hagnað (ef einhver var) af mótum til þess að fjármagna keppnisferðir erlendis. Keppnisferðir erlendis gegna mikilvægu hlutverki í að auka víðsýni keppenda sem fá mikla reynslu fyrir vikið sem þeir miðla síðan til annarra keppenda og smátt og smátt eykst þekking íslenskra keppenda á því hvað þarf til að ná langt í íþróttinni. Vert er að taka fram að þangað til að undirritaðir tóku við stjórnartaumum IFBB hér á landi var afar sjaldgæft að menn færu erlendis til keppni.
Frá upphafi hafa verið gerðir um 20 sjónvarpsþættir sem undirritaðir hafa greitt fyrir að láta búa til. Þessir þættir hafa fengist sýndir á RÚV án endurgjalds í gegnum tíðina. Gerð þessara sjónvarsþátta hefur ráðist að miklu leyti af rekstrarafgangi enda mjög kostnaðarsamt að útbúa vandað sjónvarpsefni en engu að síður mikilvægt. Sjónvarpsþáttagerðin hefur að öllu leyti verið á okkar kostnað.
Fyrstu árin sem fitnessmótin voru haldin var rekstur móta á persónulegri ábyrgð undirritaðra. Þegar gert var samkomulag við IFBB seinna meir var félagið Fitness á Íslandi ehf stofnað. Þetta er skráð félag (Registered association) sem sinnir íþróttastarfsemi. Einar Guðmann er þar stjórnarformaður og Sigurður Gestsson framkvæmdastjóri og Hermann Brynjarsson endurskoðandi. Félagið fer eins og önnur ehf félög eftir reglum um félög sem sinna íþróttastarfsemi.
Fitness á Íslandi ehf hefur líka umsjón með Þrekmeistaranum sem er keppni sem undirritaðir stofnuðu til 2001. Rekstur félagsins og bókhald er því ekki eingöngu bundinn við rekstur fitness og vaxtarræktarmóta. Þrekmeistaramótin hafa þannig stutt við bakið á fitness- og vaxtarræktarkeppendum vegna þess að ef hagnaður hefur verið af þrekmeistaramótum hjálpar það til við að styrkja keppendur í keppnisferðir og fyrirbyggja að síður fari fyrir Fitness á Íslandi ehf eins og hinum þremur félögunum.
Endurskoðendur félagsins eru PricewaterhouseCoopers. Haldnir eru fundir nokkrum sinnum á ári þar sem m.a. stefnumótandi ákvarðanir eru teknar varðandi keppnir á vegum IFBB og bókhald félagsins er opið upp að sama marki og gildir um sambærileg félög á Íslandi. Tekið skal fram að fitness og vaxtarrækt eru ekki íþróttagreinar sem eru aðilar að ÍSÍ – Íþróttasambandi Íslands.
Málgagn IFBB á Íslandi er vefurinn fitness.is og tímaritið Fitnessfréttir. Útgefandi og ábyrgarmaður Fitnessfrétta og fitness.is er Einar Guðmann. Félagið Fitness á Íslandi ehf kemur ekkert að þeim rekstri en skiljanlega er gott samstarf þar á milli.
Varðandi almenn rekstrarleg atriði í kringum fitness- og vaxtarræktarmót og samstarf við keppendur er það helst að segja að ákveðin hlutverkaskipting er höfð á í því sambandi. Sigurður Gestsson sinnir að miklu leyti samskiptum við keppendur, leiðbeinir og fer með ýmis mál sem varða þá beint. Keppendur hafa alla tíð getað leitað til Sigurðar með fyrirspurnir og eitt og annað sem varðar keppnirnar sjálfar. Hann sinnir s.s. daglegum samskiptum varðandi ótal atriði sem keppendur vanhagar um og viðheldur á vissan hátt tengslaneti við þá sem hyggja á keppni. Verðlaunamál, húsnæðisskipulag móta, aðstaða keppenda, starfsmanna- og skipulagsmál og fleira eru á hans könnu.
Einar Guðmann sinnir öðru og ögn stífara hlutverki. Hann er yfirdómari á mótum og sinnir upplýsingamiðlun varðandi mót og dagskrá móta, alþjóðleg samskipti og í gegnum fitness.is og Fitnessfréttir skrifar hann flest sem þar birtist og ber ábyrgð á myndasafni. Komi upp vandamál sem varða reglur IFBB og keppendur fær hann það lítt öfundsverða hlutverk að taka á þeim málum. Öll mál, jákvæð eða neikvæð eru þó leyst í sameiningu og með fullu samráði. Ef upp koma erfið vafamál eru samskipti við forsvarsmenn IFBB erlendis á hans könnu og gott samband er þar á milli. Dómaramál, skráning keppenda fyrir mót, innritun á mótum og upplýsingagjöf fyrir og eftir mót til keppenda sömuleiðis. Hann hefur oftar en ekki verið fulltrúi fyrir keppendur á erlendum mótum. Einar er sömuleiðis ritari í stjórn Norðurlandaráðs IFBB. Undirbúningur móta, styrktaraðilar, mótsstjórn og sjónvarpsþáttagerð er sameiginleg og koma margir þar við sögu.
Varðandi aðkomu annarra félaga eða keppenda að starfsemi sem varðar mót eða störf fyrir IFBB eru undirritaðir fegnir því ef einhverjir vilja leggja til hjálparhönd. Við erum sömuleiðis alltaf opnir fyrir því hvað má betur fara. Við teljum hinsvegar ekki líklegt til afreka að manna slíkt með fólki sem talar í einni setningu um það að „bæta sportið“ eins og það er orðað en í næstu setningu er reynt að niðra allt sem gert hefur verið og ala á óánægju.
Hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að öðlast dómararéttindi og hver ber ábyrgð á dómgæslu á mótum?
Yfirdómari á mótum hérlendis er Einar Guðmann. Hann hefur haft alþjóðleg dómararéttindi hjá IFBB síðan 2002. Einar hefur dæmt á mörgum heimsmeistaramótum, Evrópumótum og Norðurlandamótum. Einar hóf að dæma árið 1988 hér á landi þegar hann hætti keppni í vaxtarrækt eftir að hafa sjálfur keppt á 11 mótum árin 1982-1987.
Fram til ársins 2000 voru engar sérstakar reglur um val dómara. Dómarar voru fyrst og fremst valdir eftir áætlaðri reynslu. Í dag ber öðruvísi við. Dómararéttindi skiptast í þrjú stig hjá IFBB. Lands-, álfu- og heimsréttindi. Til þess að fá réttindi til að dæma á landsmótum þarf áður að taka próf sem felst í að taka bakdóma sem verða að ná 80% nákvæmni þegar lágmark 12 manna flokkar eru dæmdir. Notuð er svonefnd „Deviation method“ aðferð til þess að meta hvort dómar séu við 80% meðaltal miðað við úrslit. Regla 13.4.1-6 í almennu reglum IFBB útskýrir þetta ágætlega.
Standist bakdómari þetta próf er honum heimilt að dæma á næsta landsmóti. Ef um alþjóðleg réttindi er að ræða fara bakdómar fram með svipuðum hætti. Oftast er einungis boðið upp á bakdóma á heimsmeistaramótum, ekki öðrum. Ef bakdómari stenst prófið fær hann útgefið alþjóðlegt dómaraskírteini, nokkurs konar vegabréf þar sem yfirdómari hvers móts vottar að viðkomandi hafi dæmt mótið. Áður en reynt er við alþjóðleg dómararéttindi þarf viðkomandi að hafa öðlast reynslu af dómgæslu hjá sínu landi.
Hér á landi er sífellt verið að leita að dómurum. Flestir sem hafa óskað eftir því að gerast bakdómarar hafa fengið leyfi til þess. Það er ekki áberandi vinsælt starf að sinna dómgæslu. Þar af leiðandi verða alltaf einhver afföll af dómurum. Sömuleiðis hafa orðið afföll af dómurum sem hafa ekki staðist væntingar. Yfirleitt er ekki talið æskilegt að keppendur sem eru í hléi frá keppni sinni dómgæslu nema þeir hafi lagt skýluna á hilluna. Það er þó engin regla.
Æskilegt væri að hægt hafa aðgang að mun fleiri fjölda dómara til þess að hægt væri að skipta út dómurum á stærri mótum. Þetta er þó fjarlægur draumur þar sem við megum vera þakklátir fyrir að manna eina 9 manna dómnefnd.
Hvernig er það tryggt að ekki séu tengsl á milli keppanda og dómara?
Við búum í fámennu landi og alltaf er hætt við að keppendur og dómarar þekkist eða tengist með einum eða öðrum hætti. Þar af leiðandi gildir sú regla að sé um skyldleika eða tengsl að ræða sem ætla má að hafi áhrif á dómara er sá dómari beðinn um að víkja þegar flokkur viðkomandi keppanda er dæmdur. Þetta gerist oft hér á Íslandi og er leyst farsællega. Ef dómarar eru jafnframt þjálfarar þurfa þeir að víkja þegar keppendur á þeirra vegum stíga á svið.
Í nýjasta tölublaði Fitnessfrétta er grein sem heitir Hvernig er dæmt í fitnesskeppnum? Hún fjallar ítarlega um það hvernig tryggt er að dómari sem hugsanlega reynir að dæma einhvern óeðlilega ofarlega eða neðarlega hefur ekki áhrif.
Hvernig er dæmt í fitnesskeppnum?
Að jafnaði eru annað hvort 7 eða 9 dómarar sem dæma fitnessmót. Hver og einn dómari gefur hverjum keppanda sæti út frá ákveðnum forsendum sem liggja á bak við dóminn eftir því hvort um er að ræða fitness, módelfitness eða vaxtarrækt. Of langt mál er að gera grein fyrir dómforsendum, en annað mál og einfaldara er að útskýra hvernig farið er með dómana.
Hægt er að lesa grein um dómforsendur á fitness.is. Lykilatriði í meðferð stigavarðar á dómum er að þegar dómararnir hafa gefið hverjum keppanda sæti er hæsta og lægsta sæti hvers keppanda strikað út ef sjö dómarar eru að dæma, en tvö hæstu og tvö lægstu ef dómararnir eru níu. Þetta er gert til þess að koma í veg fyrir að dómari sem setur keppanda í óeðlilega hátt eða lágt sæti hafi áhrif. Ef einhver dómari dæmir þannig allt öðruvísi en hinir dómararnir gerir þetta kerfi það að verkum að hann hefur ekki áhrif. Ef einn dómari setur t.d. keppanda í fyrsta sæti, en allir hinir dómararnir eru með hann í öðru sæti, er fyrsta sætið strikað út og er ekki tekið með í reikninginn. Sömuleiðis er tekið út einn annar dómur í annað sætið. Þannig gildir alltaf meðaltalið. Keppandi sem allir sjö dómararnir setja í fyrsta sæti fær þannig bara fimm stig þar sem tveir dómar gilda ekki. Keppandi sem fjórir dómarar setja í annað sæti, einn í fjórða sæti og einn í fyrsta sæti fær átta stig vegna þess að fjórða og fyrsta sætið er strikað út.
Þegar dómari biður um samanburð á keppendum eru yfirleitt ekki teknir færri en þrír í einu fram í samanburð, helst fimm. Sá misskilningur er gjarnan í gangi að keppendur sem eru í efstu sætum séu alltaf kallaðir fyrst fram. Það þarf alls ekki að vera. Fyrsti samanburðurinn er byggður á ósk eins af þessum sjö dómurum og þarf ekki endilega að endurspegla það sem hinir dómararnir eru að hugsa. Ekkert samráð er meðal dómara þar sem þeim er óheimilt að ræða við aðra dómara um ákveðna keppendur eða hafa áhrif á aðra dómara. Hver og einn samanburður sýnir því eingöngu það sem einn ákveðinn dómari er að hugsa.
Ef marka má tölvupósta sem yfirdómari fær að loknu hverju móti ríkir sá misskilningur meðal margra keppenda að dómarar skrifi hjá sér hinar ýmsu athugasemdir um keppendur, fyrir hvað þeir séu dregnir niður, hvað mætti betur fara hjá keppandanum o.s.frv. Raunin er sú að dómarar gefa hverjum keppanda eingöngu sæti innbyrðis í flokknum. Þetta kerfi hefur verið í notkun hjá Alþjóðasambandi líkamsræktarmanna í áratugi og hefur reynst afar vel. Það þykir réttlátt og er gott við að eiga hvað það varðar að auðvelt er fyrir yfirdómara að sjá hvort einhver dómari sé að dæma óeðlilega miðað við hina dómarana og dómar sem víkja frá meðaltalinu koma ekki niður á keppandanum.
Mega dómarar ræða um keppendur áður en úrslit liggja fyrir?
Dómurum er ekki heimilt að ræða saman um einstaka dóma fyrr en eftir keppni. Lögð er rík áhersla á að dómarar haldi sínum dómum fyrir sig þar til úrslit hafa verið kynnt. Það er ekki fyrr en í verðlaunaafhendingu sem dómari veit hvort hann dæmdi í samræmi við úrslitin. Dómari sem reynir að hafa áhrif á aðra dómara á það áhættu að verða vikið frá.
Af hverju eru ekki fengnir erlendir dómarar til að dæma á mótum á Íslandi?
Það er fyrst og fremst á alþjóðlegum mótum sem reynt er að hafa dómara frá sem flestum löndum. Gildir sú regla hjá IFBB að á alþjóðlegum mótum skuli helst ekki fleiri en tveir dómarar frá hverju landi dæma. Á þeim Grand Prix og Norðurlandamótum sem hafa verið haldin hér hafa dómarar verið fengnir frá sem flestum löndum.
Á landsmótum byggist dómgæslan á innlendum dómurum enda er um landsmót að ræða. Sama á við um önnur lönd. Þau keppast ekki við að fá erlenda dómara. Það er óheppilegur misskilningur að ætla erlendum dómurum að vera betur gefnir en innlendir. Það að vera ekki frá Íslandi er ekki trygging fyrir betri eða hlutlausari dómum.
Eins og útskýrt er hér að ofan er sjálft dómgæslukerfið þannig úr garði gert að það hindrar að miklu leyti að dómarar geti sýnt hlutdrægni. Geri þeir það er það mjög áberandi. Umræða um þörf á erlendum dómurum hefur oftar en ekki verið samhliða því að menn átta sig ekki á að kröfur til íslenskra dómara eru engu minni en þekkist í nágrannalöndunum. Oft nefna menn líka erlenda dómara til sögunnar þegar þeir eru ekki sáttir við sín úrslit. Fagmennska í dómgæslu er mikilvæg vegna virðingar gagnvart því sem keppendur leggja á sig en það er misskilningur að þjóðerni dómara segi til um gæði dóma. Íslenskir dómarar hafa sýnt það í gegnum tíðina að þeir eru samkvæmir sjálfum sér og fylgja sannfæringu sinni af fagmennsku.
Eru nákvæm úrslit og stig hvers og eins keppanda birt að lokinni keppni?
Hér má eflaust bæta um betur. Undanfarin þrjú eða fjögur ár hefur sá háttur verið hafður á að yfirdómari hefur sent hverjum og einum keppanda stig og sæti að móti loknu. Oftast voru hér áður fyrr birt úrslit með sigafjölda fyrir hverja lotu og heildarstig. Með auknum keppendafjölda var þessu hætt, fyrst og fremst af tillitssemi við keppendur sem hafna aftarlega í fjölmennum flokkum.
Það hefur hinsvegar ekki verið farin sú leið að birta sætagjöf hvers og eins dómara. Fullyrðingar um að slíkt sé gert allstaðar erlendis eiga bara við um Noreg, Svíþjóð og einstaka mót í Finnlandi. Af þeim 177 löndum sem halda mót sem þessi er mér ekki kunnugt um fleiri lönd sem birta stig einstakra dómara. Þetta er kannski minna mál í löndum þar sem milljónaþjóðir eiga í hlut, en á litlu landi eins og Íslandi er nógu erfitt að halda í þá sem vilja fórna sér í dómgæslu svo þetta bætist ekki við. Það er hinsvegar ljóst að fullur vilji er til að birta hér eftir stig lota og heildarstig a.m.k. efstu keppenda. Keppendum yrði þá tilkynnt um það fyrirfram.
Af hverju er keppandi settur í keppnisbann ef hann keppir fyrir önnur sambönd en IFBB?
Reglan sem varðar brottrekstur og viðurlög við því að keppa hjá öðru sambandi en IFBB er að finna í stjórnarskrá IFBB, (constitution) sem er líka á heimasíðu IFBB á sama stað og reglurnar. Þar er það regla 19.4.7 og 19.4.8 sem á sérstaklega við í því dæmi sem við eigum við.
Regla 19.4.7 er eftirfarandi:
Íþróttamaður eða starfsmaður sem tekur þátt í keppni eða viðburði sem ekki er viðurkenndur og á vegum IFBB má búast við sekt, banni eða brottrekstri. Þátttaka felur í sér, en takmarkast ekki við keppni, gestastöður, námskeið, fyrirlestra, dómgæslu, forsvar eða leyfa notkun nafns/auðkennis vegna auglýsinga og/eða taka þátt í keppni eða viðburði á einhvern annan hátt ef hún er ekki viðurkennd af IFBB.
Regla 19.4.8 er eftirfarandi:
Íþróttamanni, dómara, opinberum aðila, skipuleggjanda eða öðrum meðlimum er ekki heimilt að vera meðlimir í öðrum fitness og/eða vaxtarræktarsamtökum eftir að hafa viðurkennst af innanlands-, álfu- eða heimsaðilum IFBB í samræmi við stjórnarskrá og reglur félagsins. Viðkomandi er ekki heimilt að taka þátt í eða kynna á neinn hátt, eða í einu eða öðru formi starfsemi þeirra. Að öðrum kosti er heimilt að sekta, setja í bann eða reka viðkomandi.
Ákveðnir aðilar hér á landi hafa séð hag sinn í að hræra í huga keppenda hvað þetta varðar og hafa jafnvel haldið því fram að um sé að ræða hugdettu yfirdómara. Slíkt er fjarstæða og fullyrt er að ef einhver keppandi, hvort sem hann er íslenskur eða ekki hefur komist upp með slíkt er það einfaldlega vegna þess að mönnum hefur ekki verið kunnugt um brotið. Stutt er síðan forseti IFBB ítrekaði þessar reglur og á síðasta ársþingi IFBB var samþykkt að almennt yrði miðað við tveggja ára keppnisbann brjóti menn gegn þessum reglum. Þetta er því langan veg frá því að vera íslenskt fyrirbrigði.
Tilgangurinn með þessum reglum er sá sami og gildir hjá öðrum íþróttasamböndum. IFBB sér sér engan hag í að stuðla að uppbyggingu annarra sambanda eða jafnvel einstakra mótahaldara. Það yrði líklega uppi fótur og fit ef einhver tæki upp á því að auglýsa Íslandsmót í knattspyrnu og myndi hóa saman nokkrum viljugum knattspyrnumönnum úr hverfinu til að keppa á meintu „Íslandsmóti í knattspyrnu“. Líklega yrði hið raunverulega Knattspyrnusamband Íslands ekki ánægt með það.
Það hefur sjaldan reynt á þessa reglu hér á landi, en engu að síður nokkrum sinnum. Klofningur varð í hópi keppenda árið 1998 þegar ákveðinn keppandi varð ósáttur við úrslit í fitnesskeppni karla. Var þá stofnað til annarrar fitnesskeppni sem var ekki viðurkennd af hálfu IFBB. Fyrst gekk hún undir nafninu Galaxy en síðar Icefitness. Haldin voru hin ýmsu mót af hálfu þessara aðila sem kölluðu öll sín mót fitnessmót og að sjálfsögðu var beitt lýðskrumi til að telja mönnum trú um að hvert einasta mót væri í heimsklassa ef einn eða tveir útlendingar mættu á mótin og hæsta stig lýsingarorða notað í fjölmiðlum.
Keppendur á þessum mótum urðu þó aldrei margir en þetta hafði þær afleiðingar fyrir fitnessíþróttina að mun erfiðara varð að útvega verðlaun fyrir keppendur og fá stuðningsaðila á mót. Áður en Galaxy og Icefitness kom til sögu voru allir með á hreinu hvað fitnessmótin snérust um. Sum árin tókst okkur jafnvel að fá bíla til afnota í heilt ár fyrir sigurvegara á fitnessmótum, en eftir tilkomu þessara móta var það ógerningur. Fitnessmótin sem við stofnuðum til höfðu ekki lengur þá sérstöðu sem þeim bar í huga stuðningsaðila.
Við vonum að þessi samantekt svari að einhverju leyti þeim spurningum sem eru keppendum ofarlega í huga.
Fyrir hönd Alþjóðasambands líkamsræktarmanna á Íslandi
Einar Guðmann og Sigurður Gestsson