Þegar Rafael Santonja forseti IFBB kynnti sportfitness karla til sögunnar vöknuðu margar spurningar um það hvar staðsetja ætti þennan keppnisflokk innan um þá flokka sem fyrir eru. Á alþjóðlegum mótum er nú þegar keppt í fitness karla með danslotu (Men´s fitness) og fitness karla án danslotu (Classic Bodybuilding) sem er sú keppnisgrein sem kölluð er einfaldlega fitness karla hér á landi þar sem danslota eða hindranabraut er ekki lengur hluti af þessum keppnisflokkum hér á landi. Vaxtarræktin er ýktasta form líkamsræktarinnar og í raun hafa karlar fram til þessa einungis getað valið um að keppa í fitness eða vaxtarrækt. Þrátt fyrir þyngdartakmarkanir og hæðarflokka hefur fitnesskeppni karla þróast þannig að keppendur eru verulega vöðvamiklir og skornir.
Gríðarlegur fjöldi æfir af kappi með líkamsrækt í huga en ekki endilega með það að markmiði að bæta sífellt á sig vöðvamassa og enda þannig eftir einhver ár í vaxtarrækt. Sportfitness karla (Men´s physique) er nýr keppnisflokkur sem ætlað er að svara þeirri þörf sem hefur myndast fyrir þá sem stunda líkamsrækt sem lífsstíl en hafa ekki endilega áhuga á að bæta endalaust á sig vöðvamassa, sérstaklega ekki á læri, enda er keppt í síðum sportlegum brettabuxum í þessum líflega keppnisflokki. Keppendur eiga að endurspegla þann heilbrigða lífsstíl sem líkamsrækt og heilbrigðu mataræði fylgir og einn tilgangurinn með litríku og léttu yfirbragði keppnisfatnaðarins er að endurspegla það lífsviðhorf sem þessum lífsstíl fylgir. Dómforsendur fela það þannig í sér að keppendur eru dregnir niður fyrir óhóflegan vöðvamassa en áherslan er lögð á gott samræmi og skurði í efri hluta líkamans ásamt því að dómarar hafa til hliðsjónar fagurfræðileg sjónarmið þegar keppendum er gefin sæti. Sportfitness er því ekki endilega undanfari fitness og vaxtarræktar, heldur öllu fremur ætlað að endurspegla hinn heilbrigða og jákvæða lífsstíl sem fylgir líkamsrækt og heilbrigðu mataræði.
Viðtökurnar við þessum keppnisflokki hafa verið frábærar á alþjóðlegum mótum og allt stefnir í að sportfitness karla verði eins og módelfitness kvenna meðal fjölmennustu keppnisflokka. Það er löngu liðin tíð að hægt sé að flokka líkamsrækt sem einhverja bólu hér á landi þrátt fyrir að misuppfærðir pennar fjölmiðla séu enn þann dag í dag að tala um líkamsrækt með lóðum sem tískubólu – þó liðið sé á fjórða áratug síðan fyrsta Íslandsmótið í vaxtarrækt var haldið. Um helmingur almennings stundar líkamsrækt í æfingastöðvum landsins sér til uppbyggingar og heilsubótar og engin almenningsíþrótt hefur vaxið að sama skapi. Keppnisgreinar í líkamsrækt eru komnar til að vera hvort sem vinsældaveiðandi blaðamönnum sem líkar betur eða verr.
Sportfitness karla – reglur
Sportfitness karla er keppnisflokkur sem hentar þeim sem kjósa að byggja upp hóflega stæltan en íþróttamannslegan og fagurfræðilega vel mótaðan vöxt.
Flokkar
Keppt er í tveimur flokkum í sportfitness karla á alþjóðlegum mótum:
– Að og með 178 sm hæð
– Yfir 178 sm hæð
Fleiri flokkum verður hugsanlega bætt við telji IFBB þörf á.
Klæðnaður:
Klæðnaður í öllum lotum eru brimbrettabuxur sem þurfa að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
1. Keppandi ræður efni- og lit.
2. Ekki er leyfilegt að klæðast þröngum buxum né teygjubuxum.
3. Ekki er leyfilegt að setja merki stuðningsaðila á buxurnar. Hinsvegar má merki framleiðanda sjást eins og Nike, Adidas eða Billabong.
4. Enginn skófatnaður.
5. Engir skartgripir eða aukahlutir leyfðir aðrir en giftingahringur.
Lotur:
Keppt er í tveimur lotum í Sportfitness karla:
Lota 1: Hálfsnúningar
Framkoma í lotu 1
Keppendur ganga inn á sviðið berir að ofan og berfættir. Ósæmileg hegðun eða óviðeigandi stöður eins og „moon“ staðan eða álíka eru ekki leyfileg.
Keppendur fara eftir leiðbeiningum yfirdómara í lotu eitt:
1. Keppendur ganga inn á sviðið einn í einu og ganga að miðju sviðsins. Þar snúa þeir fyrst fram og síðan beint aftur. Þeir ráða því hvort önnur hendi sé í vasa eða hvílir á mjöðm en snúa að lokum að dómurum. Keppandinn gengur síðan að öðrum enda sviðsins eftir ábendingum yfirdómara.
2. Þegar allir keppendur eru komnir inn á sviðið er þeim skipt upp í tvo jafn stóra hópa og settir þannig að annar hópurinn er vinstra megin á sviðinu og hinn hópurinn hægra megin á sviðinu. Miðja sviðsins er skilin eftir auð til þess að notast í samanburði.
3. Hópunum er vísað í samanburð á miðju sviðinu í númeraröð og aldrei fleiri en fimm í einu. Samanburður fer fram með fram- og afturstöðum.
4. Þessi fyrsti samanburður keppenda er ætlaður til þess að gefa dómurum tækifæri til að ákveða hvaða keppendur fari í frekari samanburð.
5. Allur samanburður fer fram á miðju sviðsins og í númeraröð frá vinstri til hægri eftir ábendingum yfirdómara.
6. Allir dómarar hafa tækifæri til að biðja um einn samanburð sem yfirdómari fær afhentan. Frekari samanburður er undir ákvörðun yfirdómara kominn.
7. Allir keppendur fara í að minnsta kosti einn samanburð.
8. Eftir síðasta samanburðinn raða allir keppendur sér upp í númeraröð áður en þeir yfirgefa sviðið.
Stigagjöf í lotu 1 (hálfsnúningum):
Stigagjöf í lotu 1 fer fram á eftirfarandi hátt:
1. Dómarar gefa hverjum keppanda sæti og ganga úr skugga um að engum tveimur keppendum sé gefið sama sætið.
2. Tvö efstu og tvö lægst sætin eru strikuð út þegar níu dómarar dæma. Sætin sem eftir standa eru lögð saman og heildarstig fyrstu lotu eru fundin ásamt sæti í fyrstu lotu.
3. Jafntefli í fyrstu lotu ráðast af Hlutfallsaðferðinni (Relative Placement Method).
4. Efstu sex keppendurnir fara í úrslit í lotu 2.
Lota 2, úrslit: hálfsnúningar
Klæðnaður í lotu 2 er sami og í lotu 1.
Framkoma í lotu 2 (hálfsnúningar).
Lota 2 er framkvæmd á eftirfarandi hátt eftir leiðbeiningum yfirdómara:
1. Keppendur ganga inn á sviðið og eru kynntir einn í einu með númeri, nafni og landi, hver fyrir sig og í númeraröð. Þeir ganga fremst að miðju sviðsins og þar taka þeir fram og afturstöðu og mega vera með aðra hönd í vasa eða á mjöðm en snúa að lokum að dómurum. Keppandinn gengur síðan að öðrum enda sviðsins eftir ábendingu yfirdómara eða sviðsstjóra.
2. Sex efstu ganga í númeraröð að miðju sviðinu og framkvæma fram- og afturstöður.
3. Röð keppenda er snúið við eftir leiðbeiningum yfirdómara eða sviðsstjóra og keppendur framkvæma aftur fram- og afturstöður.
Stigagjöf í lotu 2 (hálfsnúningum):
Stigagjöf í lotu 2 fer fram á eftirfarandi hátt:
1. Hver dómari gefur hverjum keppanda sæti frá fyrsta til sjötta sætis og gengur úr skugga um að engir tveir keppendur fái sama sæti.
2. Tvö efstu og tvö lægst sætin eru strikuð út þegar níu dómarar dæma. Sætin sem eftir standa eru lögð saman og heildarstig lotu 2 eru fundin ásamt sæti í annarri lotu. Ef dómarar eru 7 eða 5 er efsta og lægsta stig hvers keppanda strikað út.
3. Keppandinn sem er með lægstu stigagjöfina sigrar.
4. Jafntefli í lotu 2 eru leyst með því að nota Hlutfallsaðferðina (Relative Placement Method).