Í dag lauk Sigurkarl Aðalsteinsson keppni á heimsmeistaramótinu í vaxtarrækt á Spáni þar sem hann hafnaði í fjórða sæti í sínum flokki. Hann varð Evrópumeistari 60 ára og eldri á síðasta ári, fyrstur íslendingar til að hampa Evrópumeistaratitli í vaxtarrækt. Þessi árangur Sigurkarls er einstakur, ekki síst í ljósi þess að í flokknum eru fyrrum heimsmeistarar. Í fimmta sæti á eftir Sigurkarli var t.d. Rafael Vera sem er fyrrverandi heimsmeistari.

Við gefum Sigurkarli orðið: “Nú er ég búinn að keppa í mínu fyrsta heimsmeistaramóti og voru 600 keppendur þrátt fyrir Covid-19. Ég keppti í 60 ára opnum flokki sem var gert vegna Covid-19, sem sagt engin skipting á keppendum eftir stærð og þyngd.

Sá sem vann minn flokk var glæsilegur Ítali, 188 cm og 100 kg, annar varð gamalreyndur rússi, 102 kg og þriðji var tékki sem er 156 cm hár og 135 cm á breidd. Allt keppendur sem voru búnir að keppa og vinna fjölda móta og glæsilegir keppendur. Ég fékk fjórða sæti og er mjög sáttur. Sá sem varð fimmti var glæsilegur 75 ára spánverji sem við keppendur bárum mikla virðingu fyrir. Sjötti var frá Rúmeníu mjög flottur en mjög lélegur að sýna það og mætti í skýlu af ömmu sinni sem betur fer fyrir mig.

En kæru vinir þetta sport er þolinmæðisvinna og ótrúlega gefandi en keppandi verður að skilja það að ef árangur á að nást þá verður maður að vera glaður og jákvæður annars verður allt erfitt og hundleiðinlegt fyrir bæði keppanda og alla í kring um hann. Að leyfa sér að vera pirraður á undirbúningi er ekki leyfilegt og þá ert þú ekki hæfur í þetta. Málið er að ná að breyta því og njóta, hafa stjórn á sér og vera stoltur og jákvæður – þá vinnur kroppurinn miklu betur. Þannig er með allt sport ef þú ert ekki í jafnvægi næst ekki árangur. Að lokum: verum vinir og sameinumst um að upphefja þetta sport og engan fjandans pyrring út í reglur og allt og alla. Við þurfum að fara eftir alþjóðlegum reglum eins og aðrar þjóðir, elska þetta sport og er búinn að kynnast frábæru fólki sem stundar þetta bæði heima og erlendis.

Verum glöð og verum vinir, kv Sigurkarl.

https://youtu.be/yVm6WA2zwuM?t=10493

Í meðfylgjandi video sést Sigurkarl á sviði með sínum flokki. Hann er númer 142. Spánverjinn sem varð í fimmta sæti á eftir Sigurkarli er fyrrum heimsmeistari.