Sveiflur á milli hungur- og saðningartilfinningar eru ýktari þegar fæðuvalið snýst um fæðutegundir með háum sykurstuðli.

Fæðutegundir sem eru með háan sykurstuðul (glycemic index) innihalda mikið af einföldum kolvetnum og þeirra helsta einkenni er að hækka blóðsykurinn hratt. Fæðutegundir með lágan sykurstuðul hækka blóðsykurinn hægar þar sem þær innihalda trefjar og fitu sem hægir á frásogi þeirra í meltingunni.

Skilningur næringarfræðinga á þessum hægu og hröðu fæðutegundum er sá að það sé mjög óheppilegt fyrir líkamann að nærast að miklu leyti á hröðum kolvetnum vegna óæskilegra áhrifa á heilsu og aukakílóin – sérstaklega þegar horft er til lengri tíma.

Bakaðar kartöflur og sulta eru dæmi um hröð kolvetni en epli og korn eru dæmi um hæg kolvetni. Vísindamenn eru ekki sammála um gildi hraðans í frásogi kolvetna. Við vitum þó að þeir sem borða mikið af máltíðum með hröðum kolvetnum eru í meiri áhættu gagnvart ristil- og brjóstakrabbameini.

Trefjaríkt fæði sem jafnan er með lægri sykurstuðul tengist minni áhættu gagnvart insúlínviðnámi og sykursýki. Það er hitaeiningafjöldinn fremur en samsetning fæðunnar sem skiptir mestu fyrir léttingu og aukakíló – því má ekki gleyma. Þegar upp er staðið er heildar-hitaeininganeyslan fíllinn í herberginu.

Hröð kolvetni virðast auka kviðfitusöfnun, sérstaklega hjá þeim sem þegar eru komnir með insúlínviðnám. Heppilegast er því að auka trefjar í mataræðinu og borða minna af þeim fæðutegundum sem eru með háan sykurstuðul – en ekki gleyma aðalatriðinu sem er magnið. Ofneysla hitaeininga er það sem aukakílóin byggjast á – ekki endilega hraði kolvetna í meltingu þó hröð þyki óheppilegri en hæg.

(Am J Clin Nutr 76 (viðauki): 261-298)