Mynd

Viðtal við Gunnar Þór Guðjónsson, Íslands, og Norðurlandameistara í vaxtarrækt

Það kom mörgum á óvart að heyra af því að Íslendingur hefði sigrað á Norðurlandamóti í Noregi á síðasta ári. Þar var á ferðinni Gunnar Þór Guðjónsson sem búið hefur í Danmörku um árabil. Gunnar býr þar með unnustu sinni Monu Gudjonsen sem jafnframt er formaður danska vaxtarræktarfélagsins og hefur sjálf verið að keppa í vaxtarrækt. Gunnar kom hingað til lands til þess að keppa á Íslandsmótinu í vaxtarrækt og sigraði þar með talsverðum yfirburðum. Það er óhætt að segja að Gunnar hafi ekki bara sýnt vaxtarrækt á hærra stigi en áður hefur sést meðal íslenskra keppenda, heldur í raun erlendra einnig. Hingað til lands hafa komið hinir ýmsu gestir sem því miður hafa yfirleitt ekki verið í formi, né sýnt bestu hliðarnar á vaxtarrækt. Eins og meðfylgjandi myndir sýna var Gunnar í mjög góðu formi og var vel skorinn en var engu að síður 110 kg. FF króuðu Gunnar af eftir forkeppnina á Íslandsmótinu til þess að kreysta upp úr honum nokkur heilræði fyrir lesendur sem fara hér á eftir.

Mynd

Hvað ertu búinn að keppa lengi í vaxtarrækt?

Ég keppti í fyrsta skipti ´90 á byrjendamóti og keppti síðan ´92 og ´94 á Danmerkurmóti þar sem ég var númer tvö í bæði skiptin, en svo hef ég ekkert keppt fyrr en núna. Svo hef ég reyndar verið að keppa síðan ´91 í aflraunamótum. Aflraunamótin sem ég hef verið að keppa á hafa flest verið í Danmörku. Eitt aðal mótið sem haldið er þar kallast „Den gamle bys Herkules“ og það hef ég unnið sex sinnum. Síðan hef ég einnig keppt hér á Íslandi og unnið mót hér.

Hefurðu fengið innsýn í það hvað íslenskir vaxtarræktarmenn eru að gera?
Já, ég er viss um að menn geta gert mun meira en fram til þessa. Efniviðurinn er góður, þetta er bara spurning um að vinna rétt úr því. Þeir eru að gera svipaða hluti og danskir vaxtarræktarmenn, en þó eru mismunandi kenningar í gangi um mataræði og æfingar. Ég er t.d. að borða um 20% fituhlutfall í fæðunni. Fólki finnst stundum undarlegt að maður skuli borða þetta mikla fitu þegar verið er að reyna að losna við fitu, en málið er að með því að borða rétta fitu brennirðu fitu. Þegar ég er að keppa í aflraunum er ég að borða 8-10.000 hitaeiningar á dag, en þegar ég er að skera niður borða ég um 4000 5000 hitaeiningar. Með þennan vöðvamassa þarf ég að borða svona mikið

Ég er nú ekki búinn að vera lengi hérna til þess að meta hvað íslenskir vaxtarræktarmenn eru að gera en sé að hér eru mörg góð efni. Það er eins og menn slappi full mikið af. Menn þurfa að sjálfsögðu að taka vel á, en það má ekki taka svo mikið á að menn fari að brenna sjálfa sig. Menn þurfa að kunna að taka sér hvíld og sleppa því að fara á æfingu. Sjálfur æfi ég bara þrisvar í viku og tek auk þess tvo daga þar sem ég geri bara brennsluæfingar. Þá annað hvort hjóla ég eða hleyp á hlaupabretti. Eftir að ég fór að æfa fyrir vaxtarræktina hef ég gjörbreytt öllum mínum æfingum. Fyrsta daginn af þessum þremur æfi ég brjóst og handleggi, fætur annan daginn og axlir og bak þriðja daginn. Síðan tek ég maga með brennsluæfingunum annan daginn og kálfa hinn daginn. Yfirleitt fer ég á æfingu á mánudag, miðvikudag og fimmtudag en svo er misjafnt eftir því hvernig ég er að vinna hvort ég fari á æfingu á sunnudegi eða ekki, en ef ég æfi á sunnudögum fer ég síðan næst á þriðjudegi og svo koll af kolli þannig að dagarnir eru ekki endilega fastir.

Ertu að borða mikið af bætiefnum?

Það er alltaf hægt að notfæra sér bætiefni. Núna nota ég mikið kreatín og mysuprótein og þegar ég er að byggja upp nota ég Supergainer og svo tek ég extra vítamín og amínósýrur, bæði í fljótandi formi og töflur. Lyfjaeftirlitið er mjög strangt í Danmörku. Það er mjög erfitt að fá að flytja inn margt af því sem hægt er að kaupa t.d. í Bandaríkjunum.

Hvernig er lyfjaeftirliti háttað á mótum í Danmörku? Það er mjög strangt. Öll mót eru lyfjaprófuð og þá er það yfirleitt þannig að þegar menn mæta í vigtun er dregið af handahófi hverjir það eru sem eiga að fara í lyfjapróf enda eru þau samkvæmt reglum IFBB.

Ertu að stefna á einhver mót á næstunni?

Það hefur nú gengið mjög vel hjá mér undanfarið og þess vegna er ég að spá í að taka þátt í Heimsmeistaramóti öldunga 2003. Þá verð ég fertugur. Ætlarðu að gera það að árvissum viðburði að keppa á Íslandi? Nei, ég held ekki. Nú í ár greip ég tækifærið vegna þess að ég var í formi og þegar ég hitti Guðmund Bragason á Norðurlandamótinu og hann bauð mér að koma hugsaði ég málið í nokkra daga en sá að það var um að gera að nýta formið. Ég á ekki von á því að koma á næsta ári. Hugsanlega árið 2003 þegar ég fer að stefna á að keppa í Masterskeppninni. Ef það fer saman er hugsanlegt að ég komi.