Safngreiningarrannsókn sem byggðist á að Japanskir vísindamenn fóru yfir 14 vandaðar rannsóknir á kolvetnalágu mataræði bendir til að ávinningurinn af kolvetnalágu mataræði sé lítill til lengri tíma litið.
Þegar horft er til 12 mánaða léttist fólk einungis um 700 grömm og að meðaltali losnuðu þátttakendur við tæplega 800 grömm af fitu. Það sýnir að kolvetnalágt mataræði situr við sama borð og flestir megrunarkúrar þar sem mikill meirihluti þyngist aftur þegar frá líður.
Vísindamenn við Harvardháskóla áætla að um 45 milljónir Bandaríkjamanna fari í megrunarkúra á hverju ári og mikill meirihluti þeirra misheppnast.
Markmiðið með léttingu ætti að vera að losna við fitu og viðhalda árangrinum til lengri tíma. Skyndimegrunarkúrar valda oft miklu vöðvatapi og leggja ekkert af mörkum til að venja fólk á heilbrigt mataræði til framtíðar sem viðheldur léttingunni.
Til eru stofnanir og fyrirtæki sem bjóða fólki skilvirka megrunarkúra eins og t.d. Weight Watchers eða Jenny Craig og fólkið sem fer í þessa megrunarkúra lofar og dásamar fyrirtækin þegar kílóin fara að hverfa en þegar dæmið snýst við og aukakílóin fara að skila sér aftur heim í hús ásakar þetta sama fólk sjálft sig en ekki fyrirtækin fyrir að hafa mistekist. Þar af leiðandi fer fólk aftur og aftur í meðferð á vegum þessara fyrirtækja sem græða vel þar sem fyrirtækin eru í áskrift að fólki sem án þess að átta sig á því er í raun að stunda svonefnda jó-jó megrunarkúra.
Megrunarkúrar þar sem fólk léttist og þyngist á víxl eru stórvarasamir fyrir heilbrigði hjartans og raska efnaskiptajafnvægi líkamans.
Það er vissulega viðeigandi í ákveðnum tilfellum að leita til einkaþjálfara, fyrirtækja eða ráðgjafa til þess að fá aðstoð og hjálp við að léttast. Það er hinsvegar mikilvægt að frumkvæðið og drifkrafturinn komi innan frá og beinist að því að breyta daglegum matarvenjum án öfga.
(Obesity Reviews, vefútgáfa 5 apríl 2016)