Eftirfarandi eru þær viðmiðunarreglur sem farið er eftir þegar keppnisréttur á erlendum mótum er annars vegar. Flest nágrannalönd okkar hafa sambærilegar reglur.
Íslandsmót: Allir geta keppt á Íslandsmóti svo framarlega sem þeir uppfylli skilyrði um aldur, þyngd og hæð í þeim flokkum sem keppt er í.
Norðurlandamótið: Fyrstu þrjú sætin á Íslandsmóti gefa þátttökurétt en samþykkt dómaranefndar þarf sömuleiðis að liggja fyrir. Fjöldatakmarkanir mótsins varðandi fjölda keppenda í hvern flokk frá hverju landi ásamt heildarfjölda eru sömuleiðis hafðar til hliðsjónar.
Evrópu- og heimsmeistaramót: Keppnisréttur ræðst af gengi á norðurlanda- og Íslandsmótum síðastliðinna tveggja ára. Skilyrði er að keppa á Íslandsmóti eða Bikarmóti undanfarið ár og að hafa hafnað í einu af fimm efstu sætunum á norðurlandamóti síðustu tveggja ára eða fyrsta sæti á Íslandsmóti. Íslandsmót vegur þyngra en Bikarmót í forgangi keppenda. Ef viðkomandi hefur áður hafnað í einu af tíu efstu sætunum í fullskipuðum flokki á Evrópu- eða heimsmeistaramóti síðustu tveggja ára telst skilyrðum umsóknar fullnægt.
Grand Prix og Arnold mótin: Sækja þarf sérstaklega um hvert og eitt mót en skilyrði til keppni erlendis er að hafa keppt á Íslandsmóti eða Bikarmóti undanfarið ár og hafnað í efsta fjórðungi flokksins. Hóflegar kröfur eru gerðar til keppenda sem fara á þessi mót og því eru þau nokkuð heppileg fyrir þá sem eru að byrja. Dómaranefnd metur engu að síður hverja og eina umsókn.
Önnur mót: Fjallað er sérstaklega um hverja og eina umsókn þegar um er að ræða önnur mót en þau sem hér hefur verið fjallað um. Almennt gildir sú regla að horft er til fyrri árangurs og keppnisforms umsækjanda sem og styrkleika mótsins.
Almennt um keppnisrétt erlendis: Ef ofangreindum skilyrðum um umsókn um keppnisþátttöku er fullnægt með þátttöku í ákveðnum flokki gildir umsóknin einungis um þann flokk. Keppni í fitnessflokki gildir t.d. ekki um keppni í módelfitness.
Dómaranefnd fjallar um umsóknir og áskilur sér rétt til að hafna eða samþykkja umsóknum óháð skilyrðum keppnisréttar. Nefndin metur hvort forsendur séu til staðar til þess að forsvaranlegt sé að keppandi taki þátt í því móti sem sótt er um og er form og fyrri árangur hafður til hliðsjónar og fjárhagsleg sjónarmið. Nefndin hefur ofangreindar forsendur að meginsjónarmiði og hvikar ekki frá þeim nema sérstakar ástæður mæli með því.
Keppendur sem sækja um að taka þátt á alþjóðlegum mótum þurfa að gera ráð fyrir að dómaranefnd eða fulltrúi hennar kanni keppnisform umsækjanda um mánuði áður en mót fer fram. Ekki er ætlast til að umsækjandi sé kominn í keppnisform á þeim tímapunkti, en að metið sé svo að slíkt sé raunhæft.
Í þeim tilfellum þar sem ekki er keppt í öldunga- eða unglingaflokkum og tækifæri gefst ekki til að afla sér þátttökuréttar á Evrópu- heimsmeistara- eða öðrum mótum með þátttöku í opnum flokki, fellur það undir hlutverk dómaranefndarinnar að úrskurða hvort viðkomandi geti sótt um að keppa á Evrópumóti eða heimsmeistaramóti í öldunga- eða unglingaflokki. Sæti á Íslandsmóti er haft til hliðsjónar.
Fyrsta sæti á Íslandsmóti eða Bikarmóti gefur ekki sjálfkrafa keppnisrétt á erlendum mótum. Ennfremur áskilur dómaranefnd sér rétt til að hafna umsókn hafi umsækjandi brotið lög eða siðareglur IFBB.
Tekið er tillit til fjöldatakmarkana ef um þær er að ræða í keppnisflokkum við mat á keppnisrétti á erlendum mótum. Gengi á undanförnum mótum og mat dómaranefndar er forsenda fyrir vali á milli keppenda. Keppnisréttur er ennfremur háður samþykki mótshaldara þar sem það á við. Í sumum tilfellum áskilja mótshaldarar sér rétt til að hafna keppendum eða setja ákveðnar takmarkanir á þátttökufjölda frá hverju landi.
Umsóknarfrestur um keppnisrétt þarf að berast fjórum mánuðum áður en mót hefst hið minnsta. Ef sérstakar ástæður mæla með því getur dómaranefnd heimilað keppnisrétt ef fresturinn er skemmri.
Keppendur sem fara erlendis til keppni eru fulltrúar Íslands ber að haga sér í samræmi við það hvað varðar framkomu, klæðnað og háttsemi. Glannalegur klæðnaður og tilburðir til auglýsinga fyrir stuðningsaðila eða þjálfara eiga ekki heima á alþjóðlegum mótum.
Keppnisréttur á alþjóðlegum mótum er óháður styrkveitingum.
Varðandi keppnisþátttöku hjá öðrum samböndum: IFBB vill sérstaklega benda á að ef keppendur sambandsins taka opinberlega þátt í mótum eða viðburðum á vegum annarra fitness- og vaxtarræktarsambanda fellur keppnisréttur hjá IFBB niður í fjögur ár. Á það við um keppnir innanlands sem utan.
Einar Guðmann, yfirdómari IFBB