verkjalyf_pillur_LargeÞað er viðhorf er almennt ríkjandi að þrátt fyrir að sum lyf geti verið hættuleg sé áhættan af aukaverkunum þess virði. Það er ennfremur regla fremur en undantekning að lyfsseðilsskyld lyf eru hættuleg séu þau ekki tekin í réttum skömmtum eða tekin lengur en ráðlagt er. Sum jafnvel hættuleg þrátt fyrir að farið sé eftir fyrirmælum læknis. Um þetta ríkir ákveðið umburðarlyndi í þjóðfélaginu. Hættan er sú að líta á lyf sem örugg í ljósi þess að þau eru fengin hjá læknum.  Sama umburðarlyndi ríkir hinsvegar ekki gagnvart óhefðbundnum lækningaaðferðum eða efnum sem seld eru án lyfsseðils. Komi upp eitt dánartilfelli – svo sjaldan sem það gerist – sem rekja má til óhefðbundinna aðferða og efna sem ekki hafa öðlast náð heilbrigðisstéttarinnar verður uppi fótur og fit. Hið öfugsnúna er að á síðasta ári létust 17.000 manns í Bandaríkjunum af völdum of hárra skammta af verkjalyfjum sem fengin voru hjá læknum. Þrátt fyrir það er notkun verkjalyfja að aukast ár frá ári og fjöldi dauðsfalla af þeirra völdum að sama skapi. Frá árinu 1999 hefur dauðsföllum fjölgað um 400% af völdum verkjalyfja þar í landi. Er þá einungis verið að horfa á verkjalyf. Ekki öll lyf.
Í ljósi þess vanda sem við blasir hafa herferðir farið í gang sem hafa það markmið að draga úr fjölda dauðsfalla vegna verkjalyfja. Clinton, fyrrverandi forseti hefur látið þetta mál sig varða og berst ötullega við að vekja athygli á vandamálinu. Verkjalyfin sem helst eru nefnd til sögu eru Oxacontin, Percocet og Vicodin þó fleiri komi við sögu. Acetaminophen (Tylenól) er helsta ástæðan fyrir innlögnum á bráðadeildir sjúkrahúsa vegna verkjalyfja. Um er að ræða sakleysislegt lyf sé það rétt notað en það veldur lifrarskemmdum ef það er tekið í stórum skömmtum. Verkjalyf geta bjargað fólki sem þarf á þeim að halda frá miklum þjáningum. Því miður færist hinsvegar í vöxt að fólk misnotar lyfin. Það kemur fyrir flesta að þurfa á verkjalyfjum að halda á einhverjum tímapunkti. Mikilvægt er að fólk átti sig á að nota þessi lyf sparlega og þá einungis þegar á þarf að halda.
(Consumer Reports í september 2014)