Evrópumótið í fitness og vaxtarrækt verður haldið í Tavira í Portúgal dagana 18 – 21 júní. Á mótinu verður keppt í formfitness og íþróttafitness sem og vaxtarrækt kvenna eins og undanfarin ár. Vegna fjöldaaukningar keppenda hafa ýmsar breytingar verið gerðar á reglum sem kynntar hafa verið hér á fitness.is fyrir skemmstu. Má þar meðal annars nefna að danslota í íþróttafitness styttist úr 90 sek í 60 sek. Í vaxtarrækt er ennfremur hætt að nota fjórðungssnúninga. Á það reyndar við um öll mót.

Hvort einhverjir íslenskir keppendur komi til með að fara á Evrópumótið er ekki vitað enn sem komið er en reiknað er með að Íslandsmótið sem haldið verður um Páskana dagana 9 – 10 apríl í Íþróttahöllinni á Akureyri skeri úr um það.