Það er enginn skortur á fólki sem vill léttast. Fjöldi þeirra sem er að reyna að létta sig eykst jafnt og þétt en nú þegar við notum öpp (smáforrit) í símunum okkar til að leysa hin ýmsu vandamál þarf ekki að koma á óvart að slíkum öppum fer fjölgandi.
Hvatning og stuðningur skiptir miklu máli þegar barist er við aukakílóin og farsímarnir okkar hafa reynst vel við að halda okkur við efnið þegar við erum að skokka, ganga eða hjóla en samt sem áður er lítið vitað um gagnsemi þessara smáforrita sem eiga að hjálpa okkur að léttast.
Nú er búið að rannsaka gagnsemi þessara smáforrita út frá praktískum sjónarmiðum. Marco Bardus og félagar við Ameríkuháskólann í Beirut í Líbanon rannsökuðu áhrif 23 vinsælla appa og mátu þau út frá gagnsemi við markmiðasetningu, eftirfylgni og gæðum þeirra upplýsinga sem þau veita.
Þeir félagar ályktuðu að flest öppin séu í meðallagi hvað gæði snertir en þau skortir vísindalegan bakgrunn að baki fullyrðinga sem þau varpa fram í formi upplýsinga.
Appið sem fékk hæstu einkunn hjá þeim var My Diet Coach Pro sem fékk ágæta einkunn fyrir virkni, útlit, þægindi í notkun og gæði upplýsinga. Almennt er ekki talið líklegt að þessi smáforrit gagnist við að halda aukakílóunum í skefjum þegar til lengri tíma er litið.
(International Journal of Behavioral Nutrition and Physical Activity 13:35, 2016)