Á Íþróttaþingi ÍSÍ í apríl 2004 voru gerðar umfangsmiklar breytingar á lögum ÍSÍ til að samræma þau alþjóðlegum lyfjareglum WADA (World Anti-Doping Code). Ein mikilvæg breyting sem varð í kjölfarið er að nú verður allt íþróttafólk sem samkvæmt læknisráði neytir efna af bannlista WADA að skila inn umsókn um undanþágu fyrirfram (Therapeutic use exeption, TUE).Öllum íþróttamönnum innan ÍSÍ ber að nota viðeigandi eyðublöð og fylgja neðangreindu ferli við umsóknir um undanþágur.
Um er að ræða tvenns konar eyðublöð, eitt fyrir venjulega undanþáguumsókn og annað fyrir umsókn um einfaldaða undanþágu.
Einfölduð undaþága – eyðublað pdf.
Hægt að sækja um einfaldaða undanþágu vegna notkunar efna úr tveimur flokkum bannlistans: 1) Annars vegar eru það fjögur beta-2 virk efni til innöndunar, þ.e. berkjuvíkkandi astmalyfin terbutaline (Bricanyl), salbutamol (Ventolin), salmeterol (Serevent og Seretide) og formoterol (Oxis og Symbicort). 2) Hins vegar eru það barksterar sem notaðir eru eftir öðrum íkomuleiðum en um munn eða endaþarm eða með innsprautun í blóðrás eða vöðva, en í þessum flokki eru m.a. bólguhemjandi astmalyf til innöndunar, ýmsir nefúðar, ýmis húðsmyrsl og augn- og eyrnadropar. Athugið að barkstera er að finna í afar mörgum lyfjum og lyfjaformum og þetta er ekki tæmandi upptalning.
Einfölduð undanþága tekur gildi þegar rétt útfylltri umsókn er skilað til Undanþágunefndar Lyfjaráðs ÍSÍ, án sérstakrar umfjöllunar.
Venjuleg undanþága – eyðublað pdf.
Sækja þarf um venjulega undanþágu vegna allrar annarrar notkunar efna af bannlista en talin er upp hér að ofan og fjallar sérstök undanþágunefnd um slíkar umsóknir og tekur ákvörðun um hvort undanþága skuli veitt.
Kynning á undanþáguferlinu var send til allra sambandsaðila ÍSÍ (héraðssambönd, íþróttabandalög, sérsambönd, íþróttafélög og deildir) í lok maí. Þann 1. ágúst var því liðinn sá 2 mánaða aðlögunartími sem Lyfjaráð ÍSÍ ákvað að veita því íþróttafólki sem þarf að sækja um undanþágur vegna notkunar berkjuvíkkandi astmalyfja eða insúlíns.
Þeir sem ekki hafa skilað inn undanþágu og taka þátt í lyfjaeftirliti eiga yfir höfði sér refsingu. Því er ítrekað mikilvægi þess að sambandsaðilar tryggi að ofangreindar upplýsingar hafi verið kynntar öllum íþróttamönnum sem æfa og keppa á þeirra vegum, svo og öðrum sem starfa á þeirra vegum og þurfa starfs síns vegna að kunna skil á þeim lyfjum og aðferðum sem bannað er að nota í tengslum við íþróttaiðkun.
.
Listi yfir bönnuð efni og aðferðir 2005 (gildir frá 01.01.2005)
Skýringar á helstu breytingum frá listanum 2004 (enska)
Eftirlitslisti WADA 2005
Listi yfir önnur efni sem ekki eru bönnuð en fylgst verður sérstaklega með.
Upplýsingar um undanþáguumsóknir til notkunar efna af bannlista WADA.