Í kvöld lauk Grand Prix keppni sem haldin var í Ringsted í Danmörku. Fjórir íslenskir keppendur kepptu á mótinu og komust þeir allir í fimm manna úrslit sem er frábær árangur í ljósi styrkleika mótsins.Haldin var forkeppni að morgni keppnisdags þar sem fimm efstu voru valdir í hverjum keppnisflokki til þess að halda áfram í úrslit og komust allir okkar keppendur áfram. Úrslitakeppninni lauk í kvöld undir fullu húsi áhorfenda, enda eru fitness og vaxtarrækt mjög vinsælar íþróttagreinar í Danmörku. Í vaxtarrækt kepptu þeir Sigurður Gestsson og Magnús Bess Júlíusson og endaði Sigurður í fimmta sæti í -80 kg flokki og Magnús í fjórða sæti í -100 kg flokki. Í flokkum þeirra beggja sigruðu kappar sem eru báðir fyrrum heimsmeistarar í sínum flokki. Árangur Sigurðar og Magnúsar er mjög ásættanlegur þegar haft er í huga að þeir voru að keppa við gríðarlega öfluga keppendur. Í fitness kepptu þau Kristján Samúelsson og Heiðrún Sigurðardóttir. Kristján hafnaði í fimmta sæti í sínum flokki og þar sigraði enn einn fyrrum heimsmeistarinn í fitness. Heiðrún keppti í fjölmennum flokki þar sem hún hafnaði í fjórða sæti sem er frábær árangur hjá henni. Heiðrún hefur verið að sækja í sig veðrið á alþjóðavettvangi í fitness á undanförnum árum og reynsla hennar og fágun er að skila henni sífellt betri árangri á þessu sviði. Íslensku keppendurnir munu koma til landsins á sunnudag, en þeir fá ekki langt frí þar sem næsta Grand Prix mót fer fram í Oslo í Noregi um næstu helgi. Myndir frá líðandi helgi verða setta hér inn á fitness.is við fyrsta tækifæri.