Hlutverk vatns gegn aukakílóunum er stórlega vanmetið

Nú þegar fólk er að verða sífellt betur meðvitað um heilsufar sitt, eykst jafnframt þekking á hlutverki og mikilvægi góðs mataræðis. Hins vegar er eitt sem margir vita ekki – og lítið er talað um í hinum margvíslegu kúrum, eða líkamsræktaráætlunum – en það er sú nauðsyn að drekka nægilega mikið af vatni. Þú þarfnast nægilega mikils vatns til þess að halda allri starfsemi líkamans eðlilegri. Jafnframt þarftu nægilegt magn af vatni til þess að losna við aukakílóin.

Sjáðu til, það eru nokkur stór atriði í þessu vatnsmáli og það er mikilvægt að gera sér grein fyrir þeim. Í fyrsta lagi er mannslíkaminn um 70% vatn, og fæðan sem við borðum inniheldur álíka hlutfall af vökva. Allir þeir sem hafa lært líffræði af einhverju viti, vita að það er hægt að komast af í nokkrar vikur án matar en einungis í nokkra daga án vatns – og í mjög heitu loftslagi einungis í nokkra klukkutíma. Það er vegna þess að blóðið er 90% vatn, og það sér um að flytja hin margvíslegustu næringarefni til vefja líkamans og sér um að losa líkamann við mjólkursýru og önnur úrgangsefni. Án vatns myndu vefir líkamans svelta og auk þess eitruðum við fyrir sjálfum okkur með okkar eigin úrgangsefnum. Vöðvar okkar eru u.þ.b 70% vatn, og án vatnsins væru þeir ekki færir um að þenjast út og taka á. Vatn er einnig stöðugt að vökva lungun, sem gerir okkur kleift að anda eðlilega. Auk alls þessa hjálpar vatnið við að stjórna hita líkamans, smyr liðamót og gerir líffærum okkar kleift að starfa.

Til þess að fullnægja þörfum líkamans fyrir vatn þarf að drekka 8 glös af vatni á hverjum degi. Það virðist vera ansi mikið að drekka þetta magn á hverjum degi, en þetta er það sem flestar kokkabækur í þessu bransa ráðleggja, og auk þess var enginn að segja að það ætti að drekka þau öll í einu. Eftir að hafa hugleitt hlutverk og þýðingu vatnsins almennt förum við að koma að öðru atriði sem er hlutverk þess í megrun.

Hlutverk vatns í megrun

Þessi átta glasa regla af vatni á hverjum degi er ágæt fyrir þá sem eru aðeins undir eða í kring um kjörþyngd sína og eru meðalmenn að þyngd. Séu menn hins vegar of þungir eykst þörfin fyrir vatn um eitt glas fyrir hver 12 kíló af offitu. Því miður dugir ekki eins vel að drekka kaffi, te, ávaxtasafa, bjór, vín, eða eitthvað í þá áttina. Auðvitað er megin uppistaðan vökvi í þessum drykkjum en þeir nýtast ekki eins vel og vatnið góða.

Það er því ekkert undrunarefni að það sé mikið af fólki sem hreinlega þjáist af þurrki þó svo það standi í þeirri meiningu að það drekki nægilegt magna af vökva. Ein aukaverkun sökum vatnskorts sem fáir gera sér grein fyrir er sú að það getur hreinlega stuðlað að fitusöfnun í líkamanum. Nægjanleg vatnsneysla getur aftur á móti hjálpað til við fitulosun. Við skulum aðeins velta því fyrir okkur hvers vegna svo er.

Eitt af mikilvægustu hlutverkum nýrnanna er að losa líkamann við úrgangsefni – eiturefni – sem fara síðan út með þvagi. Þegar vatnsskortur er í líkamanum gerist það sjálfvirkt að líkaminn heldur í það vatn sem hann hefur. Þegar haldið er í sama vatnið langtímum saman veldur það því að það mengast smám saman af úrgangsefnum og nýrun hreinlega eru ekki fær um að losa líkamann við eiturefni líkamsvökvans. Þannig ofkeyrast nýrun.

Það er hins vegar eitt líffæri sem aðstoðar nýrun þegar mikið liggur við og það er lifrin sem reynir að fást við þetta ofurmagn af úrgangsefnum. Það er hins vegar vandamál með lifrina að þegar lítið er um vökva í líkamanum getur hún ekki starfað eins hratt og eðlilega. Henni gerist því sífellt örðugra að fást við eitt af sínum aðal hlutverkum og það er að nýta geymda fitu sem orku. Afleiðingin er sú að líkamsfita eykst. Ástæðurnar eru aðallega tvær. Í fyrsta lagi eru þær hitaeiningar sem geymdar voru í formi fitu í líkamanum ekki nýttar sem brennsluefni þannig að það verður ekki um neina fitulosun að ræða þar. Í öðru lagi vantar líkamann vatn og þess vegna heldur hann í heilmikið magn af vatni sem getur verið 3 – 5 kg af aukakílóum.

Að sjálfsögðu er með þetta eins og annað að lausnin er ekki margslungin. Hún er einfaldlega sú að drekka þessi 8 glös af vatni á hverjum degi, en þá er miðað við meðal mann að öllu leiti bæði hvað varðar hreyfingu og líkamsþyngd. Ef þú stundar æfingar eða ert þyngri heldur en kjörþyngdin segir til um þá þarftu meira. Það er mikið um að fólk þori ekki að drekka mikið af vatni þar sem það heldur að það valdi því að það belgist út af vatnssöfnun. Í rauninni er það hið andstæða sem gerist. Þegar nægilega mikið er af vatni í líkamanum skynjar líkaminn að þurrkurinn er búinn og þá geta nýrun starfað eðlilega og þar með losað líkamann við óæskileg úrgangsefni. Þess vegna minnkar heildar vatnsmagn líkamans, og þegar lifrin getur hafið eðlilega starfsemi að nýju getur hún auðveldlega hafist handa við að breyta fitu í orku. Sé síðan hitaeiningum haldið í hæfilegu magni er ekkert sem stöðvar líkamann í að losa sig við aukakílóin.

Það eru hins vegar nokkur atriði sem þú ættir að hafa í huga sé ætlunin að auka vatnsneysluna að einhverju ráði. Í fyrsta lagi ættir þú að hafa heimilislæknirinn með í ráðum og í öðru lagi að gefa þér aðlögunartíma ef þú hefur lengi verið í vatnskorti. Þótt ótrúlegt megi virðast þá er ekki ótrúlegt að þegar þú byrjar að drekka meira af vatni en venjulega að þú verðir oftar var við þorstatilfinningu. Það er vegna þess að þegar líkaminn er búinn að vera lengi í vatnskorti dregur hann úr þorstatilfinningu.

Síðan átt þú sjálfsagt eftir að taka eftir auknum þvaglátum. Nýrun sem gegna þar hlutverki, draga úr þvagláti þegar vatnsskortur er í líkamanum og því er eðlilegt að þvaglát aukist þegar allt fer í eðlilegt horf. Skemmtilegustu áhrifin sem eðlileg vatnsneysla hefur verða augljós á baðvoginni. Léttingin getur verið veruleg – ekki einungis vegna vatnstaps heldur er öruggt að einhver fitulosun á sér stað þar sem hæfileiki líkamans til þess að breyta fitu í orku hefur aukist. Auk þess minnkar matarlystin þegar nóg er af vatni. Það skildi þó haft í huga að það er ekki nóg að drekka nóg af vatni til þess að losna við aukakílóin – gott mataræði og æfingar eru einnig nauðsynlegar. Þegar þetta þrennt er sameinað getur það gert gæfumuninn.