Það að finna góðan æfingafélaga er spurning um það hvernig þið eigið saman, rétt eins og um ástarsamband væri að ræða. Þar sem þú átt eftir að eyða miklum tíma með æfingafélaganum er full ástæða til að velta fyrir sér nokkrum atriðum áður en þú samþykkir að æfa með nýjum félaga til lengri tíma. Margir ráða sér einkaþjálfara en raunin er sú að hlutverk margra einkaþjálfara felst fyrst og fremst í hvatningu. Með góðum æfingafélaga sem þú átt samleið með geturðu náð sömu eða betri hvatningu. Hér á eftir koma nokkur ráð sem gott er að hafa í huga þegar æfingafélagi er valinn.

 

Fylgstu með því hvernig hann/hún æfir
Æfir hann/hún reglulega, er alvara á ferðum eða er viðkomandi fyrst og fremst að blaðra megnið af tímanum í æfingasalnum? Likar þér við persónuleika hans/hennar og stóra spurningin er hvort þessi æfingafélagi komi til með að hvetja þig til hins ítrasta. Ef svarið er nei við einhverju af ofangreindu ættirðu að halda leitinni áfram. 

Fylgstu með æfingastílnumEf þú ert karlmaður og vilt æfa hratt með stuttum hvíldum á milli lota er ólíklegt að þú getir æft með konu. Tíminn sem fer í að skipta um þyngdir á milli lota verður fljótlega álitinn til ónýtis. 

 

Berðu saman markmiðin
Ef hún er að æfa til þess að losna við aukakíló af lærum og mjöðmum en þú vilt helst fá vöðvameiri handleggi, er líklegt að sem æfingafélagar verði þið eins og olía og vatn. Reyndu að finna æfingafélaga sem hefur svipuð markmið og þú. 


Vertu opinn fyrir ýmsum möguleikum

Karlar æfa yfirleitt af meiri keppnishörku en konur og eru fljótari að breyta út af réttri framkvæmd einstakra æfinga. Konur leggja meira í að gera æfingarnar rétt og öryggisatriði eru ofar á listanum hjá þeim. Ef bæði eru tilbúin að mætast á miðri leið getur dæmið gengið upp. 

Prófið að taka nokkrar æfingar
Áður en þú samþykktir að leggja út í langtíma æfingaferli með nýjum æfingafélaga ættuð þið að prófa að taka nokkrar æfingar saman. Eitt er víst í því sambandi. Það er að menn læra meira um persónuleika hvers annars og eðli í erfiðum æfingum en hægt er að gera með nokkrum sálfræðiprófum. Nú í seinni tíma er orðið algengt að konur og karlar æfi saman og fyrir því eru margar ágætar ástæður. Í almennri líkamsrækt er margt sem mælir með að æfa með gagnstæðu kyni. Hvað konu varðar sem byrjar að æfa með karli hefur aukin keppnisharka hans oft í för með sér að æfingarnar verða ákafari. Það kallar á meiri þyngdir en vanalega og oft verða konur undrandi á strengjunum sem þær fá eftir að hafa tekið þunga fótaæfingu t.d. með körlum þar sem 10-20 endurtekningar eru látin duga í stað hundruða fóta eða mjaðmahreifinga sem konur gera því miður of mikið af í hóptímum með léttar eða engar þyngdir. Karlarnir læra oft þá lexíu þegar þeir æfa með konum að þær geta kennt þeim ýmislegt þegar þol og seigla er annars vegar. Þær virðast oft þola meiri sársauka og geta tekið fleiri aukaendurtekningar en karlar eftir að lyfturnar gerast þungar.