Það er fátt sem konum finnst hryllilegra en sellulite lærapokar eða appelsínuhúð eins og hún er kölluð. Þessi hvimleiða húðáferð er mun algengari hjá konum en körlum.

Orsakir appelsínuhúðar eru nokkrar. Myndun hennar virðist tengjast jafn mikið aldri og líkamsbyggingu sem og líkamsþyngd. Kona sem er í eðlilegri líkamsþyngd getur haft meiri appelsínuhúð heldur en kona sem er yfir eðlilegri líkamsþyngd.

Byggingalega séð þá er þeim svæðum sem mest er um appelsínuhúð haldið saman af bandþráðaneti. Netið liggur í efsta lagi fitunnar og þegar fitan þrengir sér í gegnum möskvana á netinu, myndast hrukkótt yfirborð á húðinni. Því meiri sem fitan er þeim mun greinilegra verður þetta hrukkótta yfirborð.

Sumar konur óháð aldri og líkamsþyngd virðast viðkvæmari fyrir þessu en aðrar svo líklegt er að erfðir eigi einnig sinn þátt í myndun appelsínuhúðar.

Aldur virðist hafa mikil áhrif. Þú munt varla sjá barn, þó að það sé feitlagið með appelsínuhúð. Einnig er það sjaldgæft að sjá eldri konu hvort heldur feita eða granna sem ekki hefur einhver merki um appelsínuhúð þó lítil séu. Þegar við eldumst getur ysta lag fitunnar rétt undir húðinni byrjað að brotna niður. Það er einmitt sú fita sem gefur þessa mjúku barnafituáferð. Þetta niðurbrot getur byrjað snemma á tvítugsaldrinum hjá sumum. Húðin fer þá að missa teygjanleika sinn, og þá sérstaklega hjá konum sem hafa verið hrjáðar af offitu. Þar sem bandþráðurinn sem heldur húðinni stinnri á það til að brotna meira og meira niður með aldrinum, þarf smám saman minna af fitu til þess að mynda hrukkótt yfirborð.

Það er ekki þar með sagt að það að vera feitlaginn sé ekki orsök appelsínuhúðar. Barn sem leyft hefur verið að fitna ótæpilega í æsku, myndar fleiri fitufrumur en eðlilegt getur talist. Það veldur því að það þarf að burðast með bæði offituvandamál og appelsínuhúð þegar það slítur barnskónum, og lengur sé ekkert gert í málinu.

Ráðin við þessu eru í raun og veru mörg og misjöfn. Fyrir utan skurðaðgerðir þar sem fitan er sogin í gegn um rör með tilheyrandi áhættu og dýrum aðgerðum, þá er eina lausnin rétt mataræði og æfingar.

Sagt er að krem gegn appelsínuhúð eigi að virka með því að mynda heita – kitlandi tilfinningu í húðinni. Það á að fá undirliggjandi fitufrumur til þess að virka betur og hefja hraðari efnaskipti. Það er ansi ólíklegt að þetta geti átt sér stað með yfirborðskremi þar sem bandþráðamöskvarnir sem mynda þessa hvimleiðu áferð húðarinnar liggja innarlega í húðinni og öll efnaskipti líkamans eiga sér stað inni í líkamanum, ekki á yfirborði hans.

Oft eru þær ráðleggingar látnar fylgja þessum kremum, að notkun þeirra skyldi vera samhliða æfingum. Þar með á öruggur árangur að nást, en hann er ekki vegna kremsins heldur vegna æfinganna

Til að ná árangri við lausn þessa vandamáls þarf hugarfarsbreytingu. Þú verður að gera þér grein fyrir því að þetta er þitt vandamál sem þú hefur sjálf komið þér í. Það er ekki hlaupið að því að kaupa sig út úr þessu með pillum, kremi, nuddi, eða smáhoppi tvisvar í viku. Stríðið við appelsínuhúðina vinnst ekki heldur með byltingarkenndum matarkúrum, það ert þú örugglega búin að reyna sjálf. Eigir þú við þessi vandamál að stríða verður þú að snúa þróuninni við og breyta fæðuvali og matarvenjum þínum smám saman til betri vegar, ásamt því að stunda einhverjar æfingar ekki sjaldnar en þrisvar í viku.

Það skiptir ekki öllu máli hvaða íþróttagrein er æfð. Það sem mestu skiptir, er að fá næga brennslu svo að efnaskipti líkamans gangi hraðar. Líkaminn þarf að hafa efnaskipti svo að endurnýjun á frumum geti átt sér stað. Það gildir einu hvers konar endurnýjun það er sem þarf að koma til, beinvöxtur, hárvöxtur, endurnýjun húðarinnar, eða annað. Efnaskipti standa á bak við alla endurnýjun í líkamanum. Út frá þessu sést að því hraðari sem efnaskiptin eru, þeim mun hraðar gengur öll endurnýjun fyrir sig. Hjá manni sem ekkert æfir og er kyrrsetumaður ganga efnaskiptin mun hægar en hjá þeim sem stundar æfingar.