Teygjuæfingar hafa fram til þessa þótt mikilvægur þáttur undirbúnings fyrir æfingar sem hluti upphitunar og forvörn gegn meiðslum. Þessi skoðun manna hefur tekið breytingum í seinni tíð þegar hver rannsóknin á eftir annarri sýnir að teygjuæfingar fyrir æfingar minnka styrk og geta jafnvel aukið meiðslahættu. Japanskir vísindamenn hafa sýnt fram á að kyrrstöðuteygjur sem og aðrar teygjuæfingar dragi úr hámarksátakagetu vöðva. Mælt er með því að hita upp með fjölbreyttum hreyfingum og að teygja á eftir æfingu þegar vöðvarnir eru heitir og hámarksgeta skiptir minna máli.
(Journal Strength Conditioning Research, 27: 195-201, 2013)