Það er að verða nokkuð algengt að skrifað sé um að æfingar á litlu álagi brenni meiri fitu en æfingar á miklu álagi. Hlutfall fituhitaeininga sem brenndar eru á litlu álagi er hærra en hlutfallið sem brennt er á miklu álagi. Hinsvegar er heildarfjöldi hitaeininga alltaf meiri þegar þegar æft er á meira álagi. Fyrir fólk sem er að reyna að losna við aukakílóin er heildarfjöldinn það eina sem skiptir máli. Nýlega var sagt frá rannsókn sem miðaði að því að bera saman brennsluhlutfallið í hálftíma göngu og hálftíma skokki. Gönguhópurinn brenndi að meðaltali 240 hitaeiningum á hálftíma og af því voru 40% úr fitu og 60% úr kolvetnum. Göngumennirnir brenndu 96 hitaeiningum úr fitu. Þeir sem æfðu undir meira álagi, þ.e.a.s. skokkararnir voru með annað brennsluhlutfall. 24% voru úr fitu, 76% úr kolvetnum. En hinsvegar brenndu þeir 450 hitaeiningum á hálftíma sem þýðir að þeir brenndu 108 hitaeiningum úr fitu á sama tíma.

(ABC News, 11 Nóv. 1999).