Við fitnum og fitnum og fitnum svo ekki sér fyrir endan á því. Í það minnsta stór hluti landsmanna samkvæmt niðurdrepandi tölfræði frá heilbrigðisyfirvöldum. Umdeilt er hvers vegna og eins og sjá má í bóka- og greinaskrifum er vinsælt að skella skuldinni á einhvern einn sökudólg. Kolvetnin, fituna, hreyfingaleysið eða hvaða nafni sem það nefnist. Í grundvallaratriðum erum við einfaldlega að borða of margar hitaeiningar miðað við það sem við brennum. Í sjálfu sér ekki flókið, en það er hinsvegar þannig að sumar hitaeiningar eru aðgengilegri en aðrar. Við erum fljót að innbyrða mikið af hitaeiningum með því að drekka sykraða drykki endalaust án þess að verða södd.
Þegar við setjum eitthvað sætt upp í munninn hvort sem það er sætur gosdrykkur, sykurmoli, konfektmoli eða sykrað kaffi – örvast sömu heilastöðvar og kókaín hefur áhrif á.
Í heilanum eru svonefndar vellíðunarstöðvar sem örvast við sykurneyslu á sambærilegan hátt og þegar eiturlyf eru annars vegar. Það sem verra er er að nýlegar rannsóknir við Háskólann í Bordeaux í Frakklandi sýna fram á að áhrifin eru jafn ávanabindandi og jafnvel meiri en sú fíkn sem fylgir eiturlyfjum á borð við kókaín. Þarna kemur kannski skýringin á því hvers vegna við eigum svona erfitt með að leggja frá okkur konfektkassann þegar hann á annað borð er kominn í fangið á okkur.
Að meðaltali erum við að borða 300 hitaeiningum meira á dag en forfeður okkar gerðu fyrir einungis 30 árum. Það kann að virðast lítið, en safnast þegar saman kemur eins og sjá má á vigtinni. Mörgu er um að kenna. Matvælaframleiðendur vita að sætar matvörur seljast betur. Þeir bæta því sykri og sætubragði í matvörur í auknum mæli, oft í formi kornsýróps sem er ódýrt hráefni. Ein ástæða þess að fólk á erfitt með að standast hitaeiningalágt mataræði og léttast er sú að ávanabindandi áhrif sykurs eru allt í kringum okkur. Þegar við sleppum máltíðum og blóðsykurinn hrapar óþarflega mikið niður fer sjálfsaginn norður og niður, fíknin nær yfirhöndinni og tölurnar á vigtinni hækka.
(Current Opinion Clinical Nutrition Metabolic Care, 16:461-465, 2013)