Stórviðburður fyrir áhugafólk um líkamsrækt um páskana í Háskólabíói.

Alls eru um 120 keppendur skráðir á Íslandsmót líkamsræktarmanna sem fer fram í Háskólabíói um páskana. Það stefnir því í viðburð sem enginn áhugamaður um líkamsrækt má missa af. Þessi fjöldi keppenda er 74% meiri en eldra þátttökumet frá 2009 þegar 69 keppendur tóku þátt í Íslandsmótinu á Akureyri. Mest er aukningin meðal kvenna, en sú breyting hefur orðið á fitnesskeppnum undanfarin þrjú ár að konur eru orðnar í meirihluta keppenda. Aukningin er mest í Módelfitness en sömuleiðis er fjölgun í öllum flokkum nema vaxtarrækt. Mestu munar um fjölgun í unglingaflokkum. Forsala miða fer fram í Hreysti í Skeifunni, Átaki við Skólastíg á Akureyri og Lífsstíl í Keflavík. Þeir sem ætla að sjá þetta stórskemmtilega mót ættu að tryggja sér miða, því allt stefnir í troðfullt Háskólabíó báða dagana.