Sigurður Gestsson svarar algengum spurningum sem oft heyrast í tækjasalnum.

Hvað er eðlilegt að léttast hratt?

Í öllum venjulegum tilfellum er það um hálft til eitt kíló á viku. Allt umfram það vekur upp spurningar um það hvort léttingin sé í öðru formi en fitu, þ.e.a.s. vöðvarýrnun og vatni. Hugmyndir um að léttast um 3 – 4 kg á viku er út í hött. Til þess að það gerist þarf að brenna um 30.000 auka hitaeiningum.

Hvenær er best að borða prótein?

Talað er um að best sé að borða prótein að morgni, því þá sé þörfin mikil fyrir prótein og einnig eftir æfingar. Ef langt líður á milli máltíða sem innihalda prótein getur niturjafnvægi líkamans raskast sem þýðir að nýting próteins verður ekki upp á sitt besta. Þess vegna getur verið ráðlegt að borða svolítið prótein síðla dags og strax á morgnana. Með þetta í huga er mælt með því að allar máltíðir innihaldi eitthvað af próteini. Almennt er orðið viðurkennt að fólk sem stundar erfiðar æfingar þurfi u.þ.b. 2 gr af próteini fyrir hvert líkamskíló á dag.

Hvenær er best að æfa að deginum?

Menn eru á engan veginn á eitt sáttir um það en hinsvegar sé mjög vinsælt í dag fyrir fólk sem er að losa sig við aukakílóin að byrja daginn á æfingu. Aftur á móti eru þeir sem hafa mikla reynslu af æfingum og prófað hvoru tveggja margir á þeirri skoðun að æfa síðdegis þar sem þeir telja líkamann betur tilbúinn undir átök. Reynslan hefur sýnt að báðir aðilar virðast geta náð árangri. Þarna er því ljóst að þetta er mjög einstaklingsbundið. Sumir eru glaðvaknaðir klukkan sex á morgnana en aðrir komast ekki í gang fyrr en um hádegi. Mætti því ætla að morgunhanarnir geti tekið góða æfingu að morgni en hinir séu betur upplagðir síðdegis.Hvað brennslu varðar er margt sem bendir til þess að menn brenni meiru í heild yfir daginn með því að taka morgunæfingu.

Hvað á að drekka mikið af vatni á dag?

Öll efnaskipti eiga sér stað í vatni og líkaminn þarf á því að halda til þess að viðhalda heilbrigði. Þess vegna hefur vatnsdrykkja áhrif á fitubrennslu og með því að drekka nóg af vatni minnkar álag á nýrun og líkaminn á auðveldara með að losa sig við ýmis úrgangsefni. Hæfilegt vatnsmagn fyrir meðalmann er 8 glös á dag.

Hvað á að borða fyrir æfingu?

Ef borðað er litla máltíð rúmum klukkutíma fyrir æfingu er hægt að auka orkuna fyrir æfinguna. Þá er ráðlegt að borða flókin kolvetni (korn, epli, kartöflur, brauð, pasta) og svolítið prótein til þess að halda blóðsykrinum stöðugum. Margir vísindamenn hallast þó að þeirri skoðun að ekki sé ráðlegt að borða mikið af kolvetnum tveimur tímum fyrir æfingu til þess að halda fitubrennslu í hámarki á æfingunni.

Hvað á að borða eftir æfingu?

Eftir æfingu þarf að fylla á glykogenbyrgðir líkamans og þetta er því mikilvægasta máltíð dagsins fyrir utan morgunmatinn. Þessvegna þarf að borða flókin kolvetni eins og áður í formi brauðs, korns, ávaxta eða grænmetis. Einnig þarf að borða eitthvað prótein og þá er nærtækast að borða fisk, magurt kjöt eða skyr.