Um síðustu helgi varð Sigurkarl Aðalsteinsson frá Akureyri Þrekmeistari karla á Þrekmeistaramóti Reykjavíkur sem haldið var í íþróttahúsinu Austubergi í Breiðholti. Guðrún Ragnarsdóttir frá Vestmannaeyjum varð Þrekmeistari í kvennaflokki eftir jafna og harða keppni. Í liðakeppninni var það World Class Gengið sem sigraði í karlaflokki og liðið Fimm fræknar frá æfingastöðinni Lífsstíl í Keflavík sigraði í kvennaflokki. Keppt var í flokki 39 ára og eldri og þar sigruðu einnig þau Sigurkarl Aðalsteinsson og Guðrún Ragnarsdóttir en liðin Tannlæknarnir og endajaxlarnir og Klappstýrurnar sem bæði eru frá æfingastöðinni Bjargi á Akureyri sigruðu  í keppni liða 39 ára og eldri.

Keppnin í öllum flokkum var mjög hörð og í efstu sætum í karlaflokki munaði litlu á efstu mönnum. Sigurkarl var með tímann 22.03 sek en á eftir honum kom Smári Kristinn Harðarsson frá Vestmannaeyjum með tímann 22.28 sek. Þriðji varð Lárus Mikael á tímanum 22.58 sek. Allt eru þetta mun betri tímar en besti tíminn á Íslandsmótinu á síðasta ári sem vannst á rúmum 25 mín. Árni Heiðar Ívarsson Íslandsmeistari síðasta árs varð í fjórða sæti þrátt fyrir talsverðar bætingar en hann var með tímann 23.14 sek.

Í kvennaflokki varð Hrönn Einarsdóttir frá Akureyri önnur, bæði í opnum flokki og í flokki 39 ára og eldri á tímanum 23.58. Þriðja varð Jóhanna Jóhannsdóttir frá Vestmannaeyjum á tímanum 25.24 sek. Alls kepptu 12 lið í Þrekmeistara Reykjavíkur og 20 einstaklingar sem er mjög góð þátttaka og ljóst að miðað við áhuga keppenda er þetta vaxandi keppnisgrein sem hentar vel þeim sem stunda æfingastöðvarnar og vilja hafa að einhverju að stefna.