infrared sauna, sána, Vöðvauppbygging er ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar sána er annars vegar. Frekar slökun og andleg afslöppun eftir erfiða æfingu. Rannsóknir á áhrifum sána hafa hinsvegar varpað nýju ljósi á áhrif þess á aukna getu í átökum og vöðvauppbyggingu. Með tilkomu infrarauðra sánaklefa er sána ekki fyrst og fremst bundið við sundlaugar og sólbaðsstofur. Auðvelt er að setja upp infrarauða sánaklefa á hvaða heimili sem er. Áhrif sána má rekja til þess að þegar kjarnhiti líkamans hækkar í skamman tíma koma ýmis jákvæð einkenni fram, þar á meðal aukið vöðvaþol, meiri framleiðsla líkamans á vaxtarhormónum og vöðvastækkun.

Hitaálagið sem fylgir einu skipti í sánaklefa, hvort sem það er infrarauð sána eða hefðbundin gufusána, veldur því að þéttleiki rauðra blóðkorna í blóðrásinni minnkar vegna blóðvökvaþynningar þar sem hlutfall vökva í blóðinu hækkar. Í kjölfar breytinga á magni rauðu blóðkornana bregst líkaminn við með því að framleiða meira af þeim og til þess myndar hann hormón sem nefnist erythropoietin (EPO). Þegar EPO er komið í blóðrásina breytir það nýjum óþroskuðum rauðum blóðkornum í fullsköpuð rauð blóðkorn sem geta flutt súrefni um líkamann. Áhrifin eru þau að meira súrefni berst til vöðva og oxun fitu og sykra eykst – sem þýðir að vöðvarnir hafa meiri orku í æfingar og átök þegar upp er staðið.

Langhlauparar sem æfðu í þrjár vikur með og án sána eftir hlaupin voru prófaðir að því loknu með 15 mínútna sprettum á hlaupabretti þar til þeir gáfust upp. Niðurstaðan varð sú að þeir sem fóru í sána gátu hlaupið 32% lengur en aðrir. Magn rauðra blóðkorna eftir sána jókst um 7,1% miðað við samanburðarhóp en þar kemur væntanlega skýringin á aukinni getu til að hlaupa.

Sána hefur einnig áhrif á framleiðslu líkamans á vaxtarhormónum. Þannig hefur sána áhrif á vöðvauppbyggingu og fitubrennslu. Í dag er nokkuð auðvelt að gera rannsóknir á breytingum á hormónaframleiðslu líkamans. Þessar rannsóknir hafa sýnt að eftir því sem tíminn í sána er lengdur eða hitinn hækkaður eykst framleiðsla líkamans á vaxtarhormónum. Í einni rannsókn sem fólst í tveimur 20 mínútna skiptum í sána með 30 mínútna kælingu á milli tvöfaldaðist framleiðsla líkamans á vaxtarhormónum. Framleiðsla líkamans á vaxtarhórmóninu virðist haldast í hendur við bæði tímalengd og hita. Í annarri rannsókn var prófað að mæla hormónaframleiðslu líkamans eftir tvö skipti í sána í klukkustund í senn. Framleiðsla vaxtarhórmóna sextánfaldaðist. Ennfremur virðast vera samverkandi áhrif af æfingum og sána þegar farið er í sána eftir æfingu.

Í annarri rannsókn á áhrifum sána kom í ljós að hálftíma sána þrisvar í viku dró verulega úr insúlíni í blóðrás hjá músum með insúlínviðnám. Blóðsykur lækkaði sem gefur til kynna að minna magn þurfti af insúlíni til að hafa áhrif á blóðsykurinn.
(MD – Muscle growth update, 92-94, apríl 2015)