karldumbellUndanfarin ár hefur æfingakerfi náð vinsældum sem á enskunni er oftast kallað HIIT en myndi á íslensku útleggjast sem hlébundnar átakaæfingar. Eins og nafnið gefur sterklega til kynna byggist æfingakerfið á miklum átökum með stuttum hléum á milli. Hægt er að ná miklum framförum með því að fylgja þessu æfingakerfi ef rétt er að staðið. Rannsóknir á hlébundnum átakaæfingum á þrekhjóli hafa sýnt fram á svipaðar framfarir á tveimur vikum og vanalega taka um sex vikur.
Samkvæmt mælingum sem Paul Falcone og félagar sem starfa hjá Pharm Sports vísindastofnuninni í Denver gerðu var hitaeiningabrennsla í hlébundnum átakaæfingum meiri þegar teknar voru styrktaræfingar í vél í samanburði við þolþjálfun og hefðbundin æfingakerfi.
Hlébundna æfingakerfið byggðist á mörgum lotum í æfingatæki sem myndar átak fyrir tilstilli vökvaþrýstikerfis. Tekið var á af fullum krafti í 20 sekúndur og hvílt í 40 sekúndur þess á milli og í heildina tóku æfingarnar um 30 mínútur. Þetta eru gríðarlega erfið æfingakerfi og henta ekki hverjum sem er en hægt er að byggja upp bæði mikinn styrk og þol ef rétt er að farið.
(Journal Strength and Conditioning Research, vefútgáfa í janúar 2015)