Kraftakeppnir hafa verið til frá ómunatíð og Íslendingasögurnar fara ekki varhluta af því að keppt hafi verið hér áður fyrr í því að lyfta steinum eða öðrum frækilegum greinum.

Sagnir af aflraunum hafa alltaf verið áberandi í sagnfræðinni. „Bybon sonur Phola lyfti mér upp fyrir höfuð með annarri hendi“ stendur á 150 kg steini sem fannst í Ólympíu. Steinninn er talinn vera frá því á sjöttu öld fyrir Krist. Það fer ekki framhjá neinum að kraftakeppnir af ýmsu tagi eru sífellt að verða vinsælli, ekki síst vegna þess að keppendurnir í þessum greinum eru að þjálfa ákveðna eiginleika til þess að ná fram óvenjulegri getu til að burðast með steina, bera þunga hluti um langan veg, velta risastórum dekkjum eða kasta hlutum. Þeir sem ætla að ná góðum árangri í þessum greinum þurfa að vera alhliða sterkir og lykillinn að því virðist vera sá að ná upp miklum styrk í vöðvunum í kringum hrygginn og að þjálfa samhæfingu mjaðmahreyfinga og hryggjarins. Stuart McGill og félagar við Waterloo háskólann í Kanada hafa komist að því að flestar kraftaþrautirnar í þessum keppnum eigi það sameiginlegt að reyna á hrygginn og hryggjaliðina. Þeir halda því fram að lykillinn að styrknum sér sá að virkja vöðvana í mjöðmunum áður en vöðvarnir í kringum hrygginn taka til sín. Þrautir eins og að ganga með þungar töskur í hvorri hendi geta gagnast þeim sem stunda hefðbundna styrktarþjálfun vegna þess að lykillinn að velgengni í kraftakeppnum er samhæfing fóta- mjaðma- og hryggjarhreyfinga. Góð samhæfing hindrar meiðsli og eykur árangur.

(Journal Strength Conditioning Research, 23: 1148-1161, 2009)