Einungis þrír hafa fallið á lyfjaprófi í fitnesskeppnum frá upphafi, en ekki 60% allra þátttakenda eins og fullyrt var í Fréttablaðinu 18. nóvember. Blaðamaður Fréttablaðsins vitnaði þar ranglega í Skúla Skúlason formann lyfjaráðs ÍSÍ sem viðurkennir að hafa farið ranglega með tölur.

Fyrir sjö árum var byrjað að lyfjaprófa fitnesskeppnir á vegum Alþjóðasambands líkamsræktarmanna (IFBB) hérlendis. Var það alfarið að frumkvæði forsvarsmanna alþjóðasambandsins en ekki ÍSÍ.

Að jafnaði eru tekin fjögur til átta lyfjapróf á hverju Íslandsmóti og alls hafa verið tekin 45 lyfjapróf á síðastliðnum sjö árum.

Þátttakendur á þessum mótum hafa verið 246. Þrír keppendur hafa fallið á lyfjaprófi vegna steranotkunar frá upphafi. Tveir árið 2002 og einn árið 2004.

Í áðurnefndri grein Fréttablaðsins er fullyrt að 60% allra þátttakenda í fitness falli á lyfjaprófum. Eitt prósent er því nær sannleikanum. Þarna ber mikið í milli og því ástæða til leiðréttingar.

Síðastliðin sjö ár hafa 18% allra keppenda á Íslandsmótum alþjóðasambandsins í fitness verið lyfjaprófaðir. Þetta er hlutfall prófana sem aðrar íþróttagreinar gætu tekið sér til fyrirmyndar enda leyfir undirritaður sér að efast um að nokkur íþróttagrein hér á landi sé lyfjaprófuð jafn mikið og fitnessíþróttin. Þessi lyfjapróf hafa alfarið verið tekin að beiðni forsvarsmanna Alþjóðasambands líkamsræktarmanna hér á landi þar sem fitnessíþróttin er ekki aðili að ÍSÍ hér á landi. Sjálf er Íþróttahreyfingin einungis að prófa á bilinu 50-128 próf á ári í hópi þúsunda iðkenda fjölda íþróttagreina.

Þessi óverðskuldaði áfellisdómur yfir fitnessíþróttinni er ekki síst gagnrýniverður í ljósi þess að leitast hefur verið við að eiga gott samstarf við ÍSÍ um framkvæmd þessara lyfjaprófa og hefur samstarfið gengið hnökralaust fyrir sig fram til þessa.

Fram kemur í áðurnefndri grein í beinu framhaldi af fullyrðingunni um að 60% allra þátttakenda í fitnesskeppnum falli á lyfjaprófum að fjárlög til lyfjaeftirlits Íþróttahreyfingarinnar verði aukin. Eins kaldhæðnislegt og það nú er þá er staðreyndin sú að aðstandendur Alþjóðasambands líkamsræktarmanna hafa greitt lyfjaprófin úr eigin vasa. ÍSÍ hefur vissulega tekið svokölluð viðbótarpróf þar sem þeir hafa fengið leyfi til þess að bæta lyfjaprófum við þau sem pöntuð hafa verið og fyrir þau próf hefur Alþjóðasambandið ekki þurft að greiða.

Gagnvart fitnessíþróttinni var þessi grein Fréttablaðsins högg fyrir neðan beltisstað og færa má rök fyrir því að margra ára ímyndarstarf hafi farið þarna í súginn.

Eitt af markmiðunum með lyfjaprófum í fitnesskeppnum er að sýna almenningi fram á að hægt sé að byggja upp hóflega stæltan og hraustan líkama án lyfjanotkunar. Það að hafa greitt nokkur hundruð þúsund krónur á ári til ÍSÍ fyrir það að sjá um framkvæmd lyfjaprófana er launað af þeirra hálfu með stríðsfyrirsögnum sem eru úr lausu lofti gripnar og einungis til þess fallnar að stofna áframhaldandi samstarfi í hættu.

Einar Guðmann

Yfirdómari Alþjóðasambands líkamsræktarmanna (IFBB) á Íslandi

Í grein sem birtist í Fréttablaðinu 18. nóvember var fullyrt að sextíu prósent þeirra sem taka þátt í fitnesskeppnum hér á landi falli á lyfjaprófum. Var þar vitnað í Skúla Skúlason, formann Lyfjaráðs ÍSÍ. Er þarna þunglega vegið að þeim fjölda keppenda sem stundað hafa keppni í fitnessíþróttinni á undanförnum árum. Raunin er sú að fullyrðingar blaðamanns eru langt frá raunveruleikanum og ekki hafðar rétt eftir Skúla. Í ljósi þess að blaðamaður Fréttablaðins ber þarna nokkra sök birtir hann ekki afsökunarbeiðni Skúla í grein sem átti að leiðrétta þennan misskilning.

Í Fréttablaðinu í dag er haft eftir Skúla Skúlasyni formanni lyfjaráðs ÍSÍ að „þar sem lítill hluti þátttakenda sé lyfjaprófaður í greininni sé erfitt að áætla lyfjanotkun í fitness.“ Hvað á þá að segja um aðrar íþróttagreinar? 18% allra þátttakenda í fitness eru prófaðir sem er það mesta sem þekkist í nokkurri íþróttagrein. Þar að auki hefur ÍSÍ alltaf staðið til boða hjá Alþjóðasambandinu að bæta við eins mörgum prófum og þeir vilja til viðbótar við þau próf sem keypt eru.

Er þarna enn verið að reyna að sverta íþróttagrein sem stendur sig mun betur en aðrar íþróttagreinar hvað lyfjapróf varðar. ÍSÍ væri nær að reyna að ná því markmiði að prófa jafn hátt hlutfall og gert er í fitnesskeppnum. Þar ber mikið í milli enda lyfjapróf í fitness til fyrirmyndar.

Ekki er hægt að sjá annað en að tvennt ráði því að bent sé á fitness þegar lyfjapróf ber á góma. Í fyrsta lagi vanþekking á stöðu þessarar íþróttagreinar og í öðru lagi það að þægilegt er að benda á íþróttagrein sem stendur utan ÍSÍ.

 Afsökunarbeiðni formanns lyfjaráðs ÍSÍ.