Um liðna helgi var undirritaður staddur á heimsmeistaramóti IFBB í vaxtarrækt karla sem fór fram á Benidorm á Spáni. Keppt var í hefðbundnum vaxtarræktarflokkum og Classic Bodybuilding sem við köllum fitness karla heima á Íslandi. Þátttaka í vaxtarrækt á Íslandi hefur dregist saman en á móti hefur fjölda keppenda í fitness og sportfitnes fjölgað mikið,  en þátttaka keppenda á heimsvísu í vaxtarrækt er mjög góð. Heimsmeistaramótið sýndi og sannaði að vaxtarrækt lifir góðu lífi í mörgum löndum. Alls voru í nágrenni við 500 keppendur sem mættu til keppni frá um 60 löndum. Enginn keppandi frá Íslandi keppti að þessu sinni.

Árleg ráðstefna Alþjóðasambands líkamsræktarmana fór sömuleiðis fram um helgina þar sem 82 lönd áttu fulltrúa, þar með talinn undirritaður fyrir hönd Íslands. Á þinginu var farið yfir liðið ár og kom fram að haldin eru rúmlega 2000 mót á ári á vegum IFBB. Eins stærsta fréttin var sú að Pan American Sports Organization (PASO) hefur viðurkennt IFBB sem aðila að sambandinu. Ennfremur var kynntur til sögu nýr keppnisflokkur sem nefnist Fitness models. Í þeim flokki koma keppendur fram í fatnaði. Konurnar í kjólum og karlar í jakkafötum. Gera á tilraun með þennan flokk í einhverjum löndum en flokkurinn verður ekki alþjóðleg keppnisgrein fyrst um sinn. Þessi keppnisgrein er kunnugleg fyrir okkur Íslendinga þar sem fyrstu keppnirnar í fitness voru með þessu sniði.

Fram kom á þinginu að tekin væru um 2000 lyfjapróf á hverju ári. Jákvæð tilfelli eru tilkynnt á ifbb.com en mikið átak hefur verið unnið í að efla lyfjapróf á alþjóðlegum mótum. Í Tælandi voru allir keppendur á Asian Beach Games prófaðir en enginn féll á prófi.

Fyrir heimsmeistaramótið var haldinn dómarafundur þar sem yfirdómari fór að venju yfir ýmislegt sem varðar dómforsendur. Dómarar hafa á undanförnum mótum verið í erfiðleikum með að greina gynecomastiu sem er ofvöxtur bakvið geirvörtur karlmanna sem oftast stafar af lyfjanotkun. Í ljósi þess að gynecomastía er ekki í öllum tilfellum vegna lyfjanotkunar sagði yfirdómarinn frá því að afstaða IFBB væri sú að um væri að ræða lýti sem dæma ætti niður fyrir sé um áberandi ofvöxt að ræða. Til að leggja áherslu á mál sitt benti hann á að dómarar sem dæmdu keppanda ekki úr 1-3 sæti fyrir að vera með gynecomastíu yrðu reknir sem dómarar. Ætlunin er að keppandi með gynecomastíu sem ætti að vera í 4-6 sæti verði settur neðar og keppandi sem ætti að vera í 1-3 sæti verði settur í 4 sæti eða neðar. Raunin var sú að í þeim flokkum sem undirritaður dæmdi voru þrjú tilfelli sem taka þurfti á. Dómarar hlustuðu greinilega á yfirdómarann því engin af þessum tilfellum hafnaði í efstu þremur sætunum.

Sama á við um grunsemdir um notkun á syntholi en það er efni sem keppendur hafa orðið uppvísir að því að sprauta í ákveðna vöðva skömmu fyrir mót til þess að stækka þá. Í sumum tilfellum er auðvelt að greina þetta en gerðar voru tilraunir með nýtt handhelt ómskoðunartæki á mótinu sem sýnir svo ekki sé um villst hvort viðkomandi sé búinn að sprauta í sig syntholi eða ekki. Keppandi sem verður uppvís að því að nota synthol fer umsvifalaust í keppnisbann.

Þá kom fram á fundinum að keppendur í sportfitness sem pósa og sperra sig eins og vaxtarræktarmenn verða dæmdir niður. Sportfitness er ekki vaxtarræktarkeppni.

Í ánægjulegri kantinum kom fram að á næsta ári er ætlunin að gefa heildarsigurvegurum á þessum mótum kost á að sækja um ProCard – atvinnumannakort.

Nokkrar myndir: (c) Einar Gudmann