Ferðamennirnir sem streyma til landsins um helgina eru sumir hverjir óvenju skornir og massaðir eins og það heitir á máli líkamsræktarmanna. Á annað hundrað keppendur, þjálfarar og fjölmiðlamenn eru á leið til landsins til þess að fylgjast með Norðurlandamóti Alþjóðasambands Líkamsræktarmanna. Um 20 ár eru síðan sambærilegt mót var síðast haldið hér á landi og er því um að ræða stórviðburð í heimi áhugafólks um líkamsrækt. Keppt verður í fitness, íþróttafitness og vaxtarrækt . Alls keppa 70 keppendur á mótinu og þar af 19 íslendingar. Einungis verðlaunahafar frá hverju landi hafa öðlast þátttökurétt á mótinu má því ætla að áhorfendur muni sjá nýjar breiddir og víddir í vöðvamassa og skurðum.Allir okkar bestu keppendur í fitness og vaxtarrækt munu stíga á svið en þeir hafa verið að undirbúa sig fyrir þetta mót undanfarna mánuði. Keppnin fer fram í Háskólabíói og hefst forkeppnin klukkan 11.00 á sunnudag, en sjálf úrslitakeppnin klukkan 18.00. Um miðja vikuna var miðasala vel á veg kominn og má því búast við mikilli spennu í loftinu á úrslitakeppninni. Miða á keppnina er hægt að fá á midi.is eða sölustöðum.