[youtube id=“6n-gRCtFxuM“ width=“620″ height=“360″]

Einfaldari reglur um keppnisskó

Á Evrópumótinu í vor og nú síðast á heimsmeistaramóti IFBB var reglum varðandi keppnisskó breytt. Nú á að miða við að allir skór séu með 1 sm við tá og 12 sm hæl. Þetta eru viðmiðanir sem ekki verða mældar upp á millimetra en tilgangurinn er að einfalda reglurnar. Fram til þessa hafa mismunandi reglur verið í gildi fyrir skófatnað eftir því hvort keppt er módelfitness eða fitness. Ekki er búið að lögfesta þessa breytingu í reglum IFBB og þar af leiðandi hefur þessi breyting ekki farið hærra en svo að á síðustu tveimur mótum var þetta kynnt sem tilraun. Þetta gekk vandræðalaust fyrir sig á báðum mótunum og því er litið svo á að þetta sé komið til að vera. Það verður því miðað við þessar reglur á Bikarmótinu í nóvember og í framtíðinni.

Ekkert svart bikini

Á síðasta Evrópumóti og á heimsmeistaramótinu var litur á bikiníi gefinn frjáls. Fram til þessa hafa keppendur í sumum keppnisflokkum komið fram á svörtu bikiníi í einni lotu. Hér eftir ráða keppendur lit á því bikínii sem þeir koma fram í og það verður því ekki sérstök lota tileinkuð svörtu bikiníi. Auðvitað má nota svart bikiní ef keppendur vilja en það er ekki lengur skylda. Þetta gildir sömuleiðis hér á landi frá og með Bikarmótinu í nóvember.

Hliðarstöður í módelfitness

Á undanförnum alþjóðlegum mótum hefur keppendum í módelfitness verið gert að taka hliðarstöður. Staðan er frábrugðin þeirri stöðu sem þekkist úr öðrum fitnessflokkum og vaxtarrækt. Þessi staða verður tekin upp á næstu mótum hér á landi og keppendur ættu því að kynna sér vel þessa smávægilegu breytingu. Hægt er að sjá stöðuna á myndum frá síðasta Evrópu- eða heimsmeistaramóti sem haldið var í Kíev í Úkraínu og á myndböndum þaðan. Meðfylgjandi myndaband sýnir stöðurnar (mínúta 7:50 til dæmis).

 Nýr keppnisflokkur á Íslandsmótinu 2014

Women´s Physique og Men´s Physique nefnast flokkar á enskunni sem byrjað var að keppa í fyrir skemmstu hjá IFBB. Men´s Physique hefur á íslensku fengið heitið sportfitness sem er að verða vinsæl keppnisgrein. Fyrir ári síðan eða svo hóf IFBB einnig að bjóða upp á Women´s Physique sem enn sem komið er hefur ekki fengið íslenskt nafn. Líklegt er að hann verði kallaður formfitness. Þrátt fyrir að ensku nöfnin séu sambærileg fyrir karla- og kvennaflokkinn eru dómforsendur afar ólíkar og alls ekki um að ræða sambærilega flokka hvað það varðar. Women´s Physique er flokkur sem gengið er út frá að sé undanfari vaxtarræktar.

Skilgreiningin á flokknum er að hann sé ætlaður konum sem vilja byggja upp minni vöðvamassa en gengur og gerist í vaxtarrækt en engu að síður samræmdan og íþróttamannslegan. Flokkurinn er því staðsettur á milli fitness (bodyfitness) og vaxtarræktar.

Reglur IFBB um Women´s physique er að finna hér.