Niðurstaða er komin úr lyfjaprófum sem framkvæmd voru á Íslandsmóti IFBB í fitness. Alls voru sex keppendur lyfjaprófaðir. Í karlaflokki fóru í lyfjapróf þeir Sigurbjörn Guðmundsson, Sigurður Örn Sigurðsson og Bjarni Steinar Kárason og í kvennaflokki þær Sif Garðarsdóttir, Heiðrún Sigurðardóttir og Sólveig Thelma Einarsdóttir. Lyfjaeftirlit ÍSÍ tók prófin á mótinu að beiðni mótshaldara og liggur niðurstaða nú fyrir. Engin lyf sem eru á bannlista fundust í sýnunum. Að vonum ríkir mikil ánægja með þessa niðurstöðu hjá mótshöldurum IFBB sambandsins, ekki síst í ljósi þess að á síðasta ári varð uppi fótur og fit þegar þrír keppendur féllu á lyfjaprófi.
Hjá fitnessdeild IFBB sambandsins er líklega eitt öflugasta lyfjaeftirlit sem framkvæmt er í íþróttagrein hér á landi. Sigurvegarar á stærstu mótum undanfarinna ára hafa yfirleitt farið í lyfjapróf.