Til að ná meiri árangri þurfa íþróttamenn að fara eftir æfingakerfum sem skipt er niður í tímabil. Tímabil þar sem áhersla er lögð á uppbyggingu, þrek, þol, styrk, léttingu, þyngingu eða hvíld – allt eftir því hvert markmiðið er eða hvaða íþrótt á í hlut. Álagið í þessum kerfisbundnu æfingum er vitanlega mis-mikið en að því kemur að verulega reynir á sálræna hlið þjálfunarinnar, sérstaklega á þeim tímabilum þegar æfingarnar eru erfiðastar. Andleg þreyta og streita segir til sín og íþróttamenn eiga mis-gott með að takast á við andlega álagið sem fylgir þjálfuninni til lengri tíma. Stífar æfingar þýða að fyrr eða síðar þarf að hvíla huga og líkama til þess að jafna sig á álaginu.

Kevin Tipton og félagar við Birminghamháskólann í Bretlandi gerðu nýverið rannsókn sem ætlað var að kanna áhrif prótínneyslu á andlega streytu sem fylgir erfiðum æfingum. Kannað var hversu gott andlegt ástand íþróttamanna var á mismunandi æfingatímabilum. Hitaeininga- og kolvetnainnihald fæðunnar var hið sama yfir öll æfingatímabilin á meðan rannsókninni stóð en þegar íþróttamennirnir borðuðu mikið magn prótíns eða 3 g fyrir hvert kíló líkamsþyngdar, varð andleg streita minni en annars á þeim tímabilum þegar æfingarnar voru erfiðastar. Það að borða 3 g fyrir hvert kíló líkamsþyngdar er óhemju mikið, jafnvel fyrir vaxtarræktarmenn. Ráðlagður dagsskammtur fyrir meðal-Jón er 0,8 g per kg en vitað er að þetta hlutfall má vera hærra ef um uppbyggingu er að ræða.

(Medicine Science Sports Exercise, 43: 598-607, 2011)