Frjálsíþróttamenn sem keppa í spretthlaupum eða stökki af einhverju tagi æfa gjarnan svonefnt clean og jerk til þess að efla neðri hluta líkamans, sérstaklega mjaðmasvæðið. Ekki er til íslenskt orð yfir clean og jerk einfaldlega vegna þess að þetta eru þær tvær hreyfingar sem saman kallast jafnhöttun. Jafnhöttun er önnur þeirra tveggja ólympísku lyftingagreina sem nefnist tvíþraut, hin nefnist snörun. „Clean“ vísar til hreyfingarinnar sem felst í að lyfta stönginni frá gólfi og upp á axlirnar, en jerk er hreyfingin sem felst í að hnykkja stönginni frá öxlum upp yfir höfuð með því spyrna við fótum, gjarnan með því að skjóta öðrum fætinum fram um leið og lyft er og rétt úr handleggjunum fyrir ofan höfuð. „Jerk“ má vel þýða sem að hnykkja þar sem það er lýsandi fyrir hreyfinguna. Orðið „Clean“ (hreint) á sér sögulega skýringu og er langsóttara hvað þýðingu varðar. Jafnhöttun og snörun hafa lengi vel verið ólympískar keppnisgreinar en ein ástæða þess að heitið á „Clean“ hreyfingunni hefur ekki verið íslenskað er að vísað er til þess að hér á árum áður notuðu þýskir lyftingamenn aðra og sérstaka aðferð til þess að koma stönginni upp á axlirnar. Sú aðferð þótti groddaleg og var kölluð „Continental“ fyrst og fremst vegna þess að það voru fyrst og fremst þýskir íþróttamenn sem notuðu hana. Hin aðferðin þótti stílhreinni og fágaðri og var því kölluð því frumlega nafni „Clean“. Hún þótti hreinni aðferð en „continental“ aðferðin.

„Jerk“ getur merkt að hnykkja stönginni upp. Tilraun til að íslenska þessar tvær hreyfingar sem jafnhöttun samanstendur af gæti því falist í að tala um að „hreinsa og hnykkja“ hversu gáfulegt sem það kann að hljóma.

Hvað sem tilraunum til íslenskuþýðinga líður þá hafa vísindamenn við Háskólann í Michigan í Bandaríkjunum komist að því að álagið á mjaðmir var mest þegar hreinsað var með þyngdir sem voru meira en 75% af hámarksþyngd. Vísindamennirnir mældu álagið á ökkla, hné og mjaðmir með 65, 75 og 85% hámarksþyngdar. Rannsóknin sýndi fram á að frjálsíþróttamenn ættu frekar að hreinsa með meiri þyngdir í stað þess að taka fleiri endurtekningar með minni þyngdir ef ætlunin er að auka mjaðmastyrk fyrir spretthlaup eða stökk.

(Journal Strength Conditioning Research, 25: 1229-1234, 2011)