Konurnar sem stunduðu oftast kynlíf áttu auðveldara með að muna ýmis erfið sérfræðiorð – en ekki endilega eftir andlitum.
Tengsl eru á milli tíðara kynlífs og betra minnis hjá ungum fullþroska konum samkvæmt könnun sem gerð var af Larah Maunder og félögum við McGill Háskólann í Montreal í Kanada.
Rannsóknin snéri að 78 gagnkynhneigðum konum á aldrinum 18 – 29 ára sem gáfu skýrslur um það hversu oft þær stunduðu kynlíf.
Konurnar tóku minnispróf í tölvu þar sem þær reyndu að muna andlit og erfið sérfræðiorð. Konurnar sem stunduðu oftast kynlíf áttu auðveldara með að muna erfið sérfræðiorð en ekki endilega eftir andlitum.
Lítið skal fullyrt um gagnsemi þess að stunda brjálað kynlíf skömmu fyrir lokapróf í anatómíu eða öðrum erfiðum prófum þar sem tengslin á milli kynlífs og betra minnis voru ekki mjög mikil. Engu að síður er þarna kannski komin ágæt ástæða til að líta upp úr próflestrinum annað slagið.
(Archives of sexual behaviour, vefútgáfa 14. nóvember 2016)