Margrét Edda Gnarr varð heimsmeistari í módelfitness í dag. Hún keppti í 32 manna flokki á heimsmeistaramótinu sem fer fram í Kiev í Úkraínu. Þetta er í fyrsta skipti sem íslendingur verður heimsmeistari í í fitness og því um risastór tímamót að ræða. Alls kepptu yfir 300 keppendur á mótinu í Kiev og auk Margrétar kepptu þrír aðrir íslenskir keppendur, þær Karen Lind Thompson, Olga Helena Ólafsdóttir og Auður Guðmundsdóttir. Karen Lind komst í 15 manna úrslit í sínum flokki en ekki liggur fyrir á þessari stundu í hvaða sæti hún lenti þar sem hún var ekki meðal sex efstu sem kepptu í úrslitum. Jóhann Norðfjörð alþjóðadómari sem ennfremur er þjálfari þeirra Margrétar og Karenar er með þeim í för en hann segir íslendingana vera í skýjunum yfir þessum frábæra árangri.
Þess ber að geta að allir keppendurnir sem höfnuðu í þremur efstu sætunum á síðasta heimsmeistaramóti eru orðnir atvinnumenn í dag. Nú ber svo við að Margrét er fyrst íslendinga til þess að eiga kost á að sækja um að verða atvinnumaður á vegum IFBB Alþjóðasambands líkamsræktarmanna.
Fitnessfréttir koma út eftir helgi en daginn áður en Margrét Edda Gnarr hélt utan til keppni fór hún í forsíðumyndatöku fyrir blaðið. Blaðið verður birt hér á fitness.is á morgun, mánudag en meðfylgjandi er ein af myndunum sem Brynjar Ágústsson tók af Margréti við þetta tilefni.
Að sjálfsögðu óska Fitnessfréttir Margréti og öllum íslendingunum til hamingju með þennan frábæra árangur.