Vaxtarrækt hér á landi átti 20 ára afmæli á síðasta ári. Þrátt fyrir talsverðan tíma síðan byrjað var að keppa í þessari íþróttagrein hefur þróunin hér á landi verið hæg undanfarin ár. Keppendu hefur frekar farið fækkandi heldur en hitt og má þar hugsanlega kenna um ýmsum samverkandi þáttum. Einn af þeim er eflaus falinn í miklum vinsældum fitnesskeppna. Í stað þess að keppa í vaxtarrækt eru eflaust margir sem vilja frekar keppa í fitness. Í samtali við Daníel Olsen sem er einn skipuleggjenda vaxtarræktarkeppninnar og er í stjórn FÁV – Félags Áhugamanna um Vaxtarrækt, kom fram að stefnt sé að því á þessu ári að taka upp lyfjaeftirlit á Íslandsmótinu í vaxtarrækt. Ekki hefur verið lyfjaprófað í vaxtarræktarkeppnum hér á landi í allmörg ár, eða síðan 1992. FÁV er undir lögum IFBB eins og fitnessdeild IFBB. Ben Weider, forseti IFBB hefur sent frá sér tilkynningu um að landssambönd sem fari ekki að reglum IFBB varðandi lyfjaeftirlit megi búast við brottvísun eða sektum. Hvort það verði hinsvegar til þess að fleiri komi til með að keppa í vaxtarrækt verður tíminn að leiða í ljós.