Hjá fitnessdeild IFBB sambandsins er stefnt að því að senda fimm keppendur á heimsmeistaramótið í fitness sem haldið verður í Santa Susana á Spáni 26-29 september. Þetta er stærsti hópur sem farið hefur á heimsmeistaramótið í fitness fram til þessa en keppendur munu taka þátt í íþróttafitness og formfitness. Einnig verður keppt í karlaflokki á heimsmeistaramótinu en keppnin fyrir þá er frábrugðin því sem íslenskir keppendur eiga að venjast að því leiti að karlarnir keppa í danslotu eins og konurnar. Ekki liggur fyrir hvort einhver karlkeppandi fari héðan, en þegar þetta er skrifað er Sigurbjörn Ingi Guðmundsson að hugsa málið.
Í íþróttafitness munu þær Heiðrún Sigurðardóttir, Una Dóra Þorbjörnsdóttir og Anna Bella Markúsdóttir fara en tveir keppendur fara á HM til þess að keppa í formfitness. Það eru Sif Garðarsdóttir og Sólveig Thelma Einarsdóttir.