Að venju var íþróttamaður ársins hjá Alþjóðsambandi líkamsræktarfólks valinn á Íslandsmótinu í fitness, módelfitness og vaxtarrækt sem fór fram um páskana. Að þessu sinni varð það Kristín Kristjánsdóttir sem varð fyrir valinu en þetta er í þriðja sinn sem hún verður fyrir valinu frá því byrjað var að velja íþróttamann ársins.

Kristín hóf sinn keppnisferil árið 2006 en hún hefur orðið Íslandsmeistari öll árin sem hún hefur keppt. Alls hefur hún keppt á 25 mótum á þessum sex árum sem er ótrúlega mikill fjöldi móta. Flestir keppendur láta sér nægja að keppa á einu til tveimur mótum á ári. Um helmingur þessara móta hefur verið erlendis en hún hefur skapað sér nafn á erlendri grundu fyrir frábæran árangur og góða sviðsframkomu. Hún er án efa meðal bestu keppenda í heiminum í sínum aldursflokki í dag. Það lýsir Kristínu best sem verðugum íþróttamanni ársins að hún er mjög iðin við að aðstoða og hjálpa öðrum keppendum og miðla þeim af reynslu sinni.

Eftirfarandi eru keppnir sem Kristín hefur tekið þátt í á síðastliðnu ári.

1. sæti Íslandsmót fitness + 35 ára (4 keppendur)  2. sæti Íslandsmót heildarkeppni.
7. sæti Evrópumót fitness + 35 ára (15 keppendur).
1. sæti í opnum flokki fitness á International Austria Cup. (16 keppendur).

Í öðru sæti varð Rannveig Kramer og í þriðja sæti varð Magnús Bess.

Við val á íþróttamanni ársins er horft til fjölda atriða á borð við árangurs i keppnum á árinu 2011 og sá árangur er metinn með hliðsjón af styrkleika þeirra móta sem keppt var á og fjölda keppenda í flokkum. Einnig er horft til framkomu, reglusemi og þess hvort viðkomandi sé íþrótt sinni til fyrirmyndar.

Saga Íþróttamanns ársins:

2010 Kristín H. Kristjánsdóttir

2009 Magnús Bess

2008 Magnús Bess

2007 Kristín H. Kristjánsdóttir