Það er engin tilviljun að styrktarþjálfun í tækjum og með lóðum er að verða vinsælasta líkamsræktin meðal kvenna. Hóflegar styrktaræfingar móta ekki bara fallegan vöxt, heldur eru þær góð fitubrennsla.Konur á efri árum hafa ennfremur mikið gagn af styrktarþjálfun. Bein styrkjast vegna álagsins og fjör og táp fylgir frískum vöðvum á efri árum. Langvarandi aðgerðarleysi og kyrrseta er helsta ástæða orkuleysis á efri árum. Andstæða þess er líkamsrækt sem byggir á lóðum eða styrktaræfingum. Til eru ýmis ráð til þess að fá sem mest út úr styrktaræfingum. Skynsamlegt er að breyta annað slagið um æfingaáætlun til þess að viðhalda fjölbreytni. Ekki er skynsamlegt að æfa alltaf undir miklu álagi, heldur er ráðlegt að æfa annað slagið á rólegu nótunum. Þannig er komist hjá ofþjálfun. Skipta ætti um æfingaáætlun nokkrum sinnum á ári. Vöðvar brenna hitaeiningum. Þeir eru drifkraftur líkamans og sjá til þess að aukakílóin hverfi frekar ef tekið er á. Þannig má líkja þeim við mótor sem er orkufrekur. Í þessu tilfelli á hitaeiningar sem æskilegt er að brenna. Efnaskipti örvast ennfremur ef vöðvamassi er meiri en minni og því á fólk sem hefur sæmilegan vöðvamassa auðveldara með að losna við aukakílóin. Þegar konur eru annars vegar er hér ekki átt við vöðvamassa sem fær þær til að ganga eins og vaggandi kraftlyftingakappa. Konur eiga almennt mjög erfitt með að bæta á sig vöðvamassa, en hóflegar æfingar skila sér í tónaðri vöðvum og með árunum auknum styrk, úthaldi og fallegum öfgalausum vexti. Konur ættu því ekki að hafa áhyggjur af að breytast í vöðvabúnt á einni nóttu. Fjölbreytt líkamsrækt með lóðum er tvímælalaust skilvirkasta leiðin til þess að ná fram betri vexti og lögulegri línum hjá konum. Það er þessari skilvirkni styrktaræfingana að þakka að allar æfingastöðvar eru fullar af fólki í dag.