Jafn blóðsykur varnar því að þú hellir þér í ofát
Sumir vaxtarræktarmenn forðast jógúrt á þeim forsendum að það innihaldi mikla fitu og margar hitaeiningar. Rétt er að sumar jógúrttegundir eru lítið annað en sykursull, en engu að síður er fitulítið jógúrt og hefðbundið skyr hin besta fæða fyrir þá sem æfa mikið og vilja hafa gætur á mataræðinu.
(Kynnt á árlegri ráðstefnu um tilraunalíffræði, Apríl 2003)
Skyr og jógúrt innihalda mikið prótín sem þýðir að þau hjálpa þér að byggja upp vöðvamassa ef þú borðar eftir æfingu. Annað sem jógúrt og skyr gera er að draga úr hungri með því að efla blóðsykurframleiðslu í lifrinni. Þegar prótínið er brotið niður í amínósýrur í lifrinni helst blóðsykurinn stöðugri sem þýðir á mannamáli að þú finnur síður fyrir hungri. Þetta getur varað í langan tíma sem getur gert gæfumuninn þegar mataræðið er til þess ætlað að skera niður hitaeiningar. Hvers vegna? Jú, vegna þess að ein besta leiðin til að klúðra því að gæta hófs í mataræði er að verða ekki svangur og blóðsykurinn er lykillinn að því. Ef blóðsykurinn helst stöðugur er ólíklegra að þú hellir þér í ofát. Þannig hafa margir megrunarkúrarnir endað. Ekki það að hér sé yfir höfuð mælt með megrunarkúrum, en hófsemin er fljót að hverfa ef blóðsykurinn er flakkandi. Kalkið í skyri og mjólkurafurðum hefur einnig reynst vinna gegn fitusöfnun eins og við höfum áður sagt frá í umfjöllun um rannsóknir. Vísindamenn við háskólann i Tennessee komust að því að fólk sem borðaði jógúrt sem hluta af matseðli fyrir þyngdarstjórnun var líklegra til að losna við meiri fitu og léttast meira en fólk sem einungis skar niður hitaeiningarnar. Ennfremur viðhéldu þeir sem borðuðu jógúrt vöðvamassanum betur. Skyrið er séríslensk vara sem útlendingar geta hæglega öfundað okkur af, enda er það afar fitulítið og mjög prótínríkt. Varist þó að borða skyr með viðbættum rjóma og miklum sykri. Við eigum eftir að sigra heiminn með skyrinu okkar einn daginn. Sannið til.