Keppnisgrein sem krefst úthalds, styrks og fágaðrar líkamsbyggingar.

Hér á eftir er að finna helstu reglur sem gilda um keppni í íþróttafitness, en keppt verður í þessari keppnisgrein á Bikarmótinu sem fer fram 16.-17. nóvember 2012. Eftirfarandi reglur eiga við um alþjóðleg mót, en unnið er út frá þeim hér á landi.

Reglur

Forval inn í forkeppni

Ef fleiri en 15 keppendur eru saman í flokk velja dómarar þá efstu með samanburði keppenda sem framkvæma fjórðungssnúninga á sviði eins og gert er í fitnesskeppnum. Framkvæmdin og dómforsendur eru eins og í fitness. Reglur um keppnisfatnað eru þær sömu hjá konum og í fitness en hjá körlum er keppt í svörtum eða gráum þröngum boxer keppnisskýlum. Skór eða annar fótabúnaður er bannaður.

Forkeppni

Fyrsta lota: Samanburður með fjórðungssnúningum. Framkoma, stigagjöf og samanburður lotu eitt fer fram á sama hátt og í fitness. Hver og einn keppandi fær ákveðið sæti í fyrstu lotu. Notuð er reglan um fleiri hærri sæti til að skera úr um jafntefli.

Önnur lota: Styrktarlota – Upptog og dýfur. Fyrst eru upptog tekin sem að jafnaði eru framkvæmd í þremur stöðvum (ein fyrir hverja fimm keppendur). Keppendur koma fram í númeraröð. Stöð 1: keppendur 1-5, stöð 2: keppendur 6-10, stöð 3: keppendur 11-15. Þrír dómarar eru á hverri stöð sem telja endurtekningar. Ein dómari þarf að sjá úr sömu hæð og stöngin er hvort hakan komist yfir stöngina, einn dómari þarf að standa fyrir aftan keppandann til þess að sjá hvort rétt sé úr handleggjum (læsa þarf alveg) í neðstu stöðu og einn dómari þarf að horfa á hlið keppandans til þess að fullvíst sé að líkaminn sveiflist ekkert. Allir dómararnir telja með klikkara. Dómarar mega leiðbeina keppandanum á meðan hann framkvæmir æfinganar en umræður eru ekki leyfðar á sviðinu eftir að framkvæmd lýkur. Tekin eru út hæsta og lægsta talningin hjá dómurunum þremur og miðjutalningin ræður. Þegar allir keppendur hafa lokið við upptog er farið í dýfur. Dýfurnar eru framkvæmdar í sömu hópum og í sömu röð til þess að allir keppendur fái jafn langan tíma til hvíldar. Einn dómari stendur aftan við keppandann og hinir dómarar til hvorrar hliðar til að fylgjast með því hvort olnbogum sé læst í efstu stöðu og dýptin sé næg (axlavöðvinn þarf að fara niður fyrir olnbogalínu) og allar sveiflur eru bannaðar. Takturinn í framkvæmd upptogsins og dýfana þarf að vera hóflega hraður til þess að dómarar geti dæmt og talið.

Stigagjöf í lotu tvö: Hver keppandi fær sæti í upptogi í samræmi við fjölda endurtekninga sæti í dýfum í samræmi við fjölda endurtekninga. Ef tveir eða fleiri keppendur eru jafnir fá þeir sama sæti. Sætið í lotu tvö = sæti í upptogi + sæti í dýfum. Ekki þarf að skera úr um sæti ef jafntefli er í þessari lotu.

Lota þrjú: Þol – róðravél. Keppt er á fimm róðravélum sé þess kostur. Keppendum er raðað í riðla í samræmi við sæti þeirra eftir fyrstu og aðra lotu. Ef um jafntefli er að ræða, ræður sætið í fyrstu lotu. Keppandinn í neðsta sætinu byrjar í fyrsta riðlinum og sá sem er efstur fer síðastur. Dómari stendur fyrir framan hverja róðravél til þess að draga úr tilfærslu hans á meðan róið er. Róa skal 1000 metra. Að síðasta riðlinum loknum fá keppendur sæti í lotu þrjú. Það er ólíklegt, en hugsanlegt að tveir eða fleiri keppendur fái sama tíma í róðravélinni. Ef svo fer fá þeir sama sæti í lotu þrjú.

Athugið: Hægt er að skipta á keppni í róðravélum og beinu hraðastökki með bolta eða samhliða hraðastökki. Keppnishaldari ákveður í kynningu á mótinu hvaða aðferð verður notuð.

Stigagjöf forkeppninnar:

Sætið í forkeppninni = Sæti í lotu 1 + Sæti í lotu 2 + Sæti í lotu 3. Allar loturnar gilda þriðjung heildarstiga. Ef um jafntefli er að ræða gildir fyrsta lota.

Úrslit

Sex efstu keppendur halda áfram í úrslit. Þeir byrja með hreint blað í úrslitunum og fara í gegnum allar loturnar: samanburð í lotu eitt, upptog og dýfur í lotu tvö og róður í lotu þrjú.

Lota 4 í úrslitum (Samanburður með fjórðungssnúningum). Sami klæðnaður og í forkeppninni og samanburður með sama hætti og í fitness.

Lota 5 í úrslitum (Styrktarlota). Keppendur í úrslitum fara einn í einu í númeraröð í gegnum upptog og síðan dýfur.

Lota 6 í úrslitum (Þol). Notast er við sex róðravélar sé þess kostur til þess að hægt sé að láta alla keppa samtímis. Ef ekki er keppt á róðravélum er keppt í samhliða hraðastökki.

Stigagjöf í úrslitum. Sömu reglur og í stigagjöf forkeppninnar.

 

Flokkar

Konur: -163 sm og +163 sm.

Karlar: -175 sm og +175 sm.

Lýsing á keppnisgreinum

Upptog

Nota þarf yfirgrip með hámark 1 m breidd, mælt frá litla fingri til litla fingurs. Líkaminn byrjar í neðstu hangandi stöðu sem þýðir að olnbogar eru læstir og rétt er úr bakinu. Líkamanum er síðan lyft upp þar til hakan kemst yfir stöngina, síðan látinn síaga í upphafsstöðu. Á meðan æfingunni stendur má líkaminn einungis hreyfast lóðrétt og fótastaðan má ekki breytast. Takturinn í hraða upptogsins þarf að vera hóflegur til þess að dómarar geti dæmt og talið endurtekningarnar.

Dýfur

Áður en byrjað er þarf líkaminn að vera í læstri stðu sem þýðir að olnbogarnir þurfa að vera læstir og líkaminn í beinni stöðu. Líkaminn er síðan látinn síga niður þar til axlir hafa farið niður fyrir olnbogalínu. Á meðan æfingunni stendur má líkaminn ekki sveiflast og má einungis hreyfast í lóðréttri og fótastaðan má ekki breytast. Takturinn í hraða upptogsins þarf að vera hóflegur til þess að dómarar geti dæmt og talið endurtekningarnar.

Róður í vél

Þessi grein skiptist í tvo þætti. Undirbúningshreyfingu og átakshreyfingu. Í lokin á undirbúningshreyfingunni eru handleggir beinir og útréttir þar til þeir eru beinir og axlir og háls eru í hlutlaustri stöðu og eftir hluti líkamans hallar ögn fram. Handfangið er lárétt og fótleggir beygðir við hné. Bilið frá sætinu að vélinni ætti að vera um 15-20 sm. Átakshreyfingin byrjar með togi þegar þrýstingur er aukinn á fótplötuna þar til rétt er úr fótum. Efri hluta líkamans er hallað ögn aftur þegar handfangið er dregið að neðri hluta rifbeina. Handleggir eiga að vera beinir frá úlnlið.

Átakshreyfingin endar og undirbúningshreyfingin hefst aftur með því að halla efri hluta líkamans fram, hnén eru beygð og sætinu rennt fram á sleðanum. Hnén mega einungis byrja að beygja eftir að hendurnar eru yfir hnjánum. Í samanburði við klukku er mælt með að líkaminn hreyfist frá klukkan ellefu til eitt og ekki er mælt með að halla líkamanum mikið. Til þess að ná takti og mýkt þarf að tryggja að átakshreyfingin nái nægu afli og að undirbúningshreyfingin sé nægilega löng til þess að leyfa vöðvunum að slaka og undirbúa næsta átak. Mælt er með að byrja á þremur kraftmiklum en ekki fullkláruðum hrefingum til þess að ná upp þeim hraða sem þarf til að ljúka við vegalengdina.

Keppnir í íþróttafitness eru haldnar á vegum IFBB alþjóðasambandsins sem starfar í 186 löndum. Það var stofnað 1946 og haldnar eru um 1400 keppnir á ári á vegum alþjóðasambandsins.

IFBB er aðili að Sport Accord, International Council of sport Science and Physical Education (ICCSSPE) og ýmsum öðrum virtum alþjóðastofnunum ásamt því að vera viðurkennt af WADA og starfar á alþjóðavettvangi í samræmi við stefnu þess um lyfjapróf.

Líkamsrækt er í dag lífsstíll milljóna víðsvegar um heiminn og IFBB hefur ávallt verið leiðandi boðberi um gildi líkamsræktar. Óháð aldri, kyni og upphaflegu líkamsformi getur líkamsrækt og góð næring hjálpað fólki að byggja upp samræmdan líkama með áherslu á hóflega líkamsfitu og heilbrigði.