Í kvöld var Íslandsmótinu í vaxtarrækt að ljúka með sigri Gunnars Þórs Guðjónssonar eða Gunna danska eins og hann hefur verið kallaður og Íslandsmeistara í kvennaflokki frá síðasta ári og Lísu Hovland. Það voru mættir 22 keppendur á Íslandsmótið að þessu sinni sem er nánast helmingi færri en á síðasta ári, en gæðin voru ekki minni því þeir bestu voru mættir. Gunnar sem búið hefur í Danmörku í allmörg ár er án efa besti vaxtarræktarmaður sem keppt hefur eða sýnt hér á landi. Hann er 110 kg, 39 ára og stærri en það sem við höfum átt að venjast í vaxtarrækt hér fram til þessa enda er hann Norðurlandameistari. Magnús Bess sem var í góðu formi lét hann þó hafa fyrir hlutunum enda hefur hann haft höfuð og herðar yfir aðra vaxtarræktarmenn hér á landi fram til þessa. Fjórar konur voru mættar til keppni, tvær í -52 kg flokki og tvær í -57 kg flokki. Allar voru þær mjög vel undirbúnar. Lisa Hovland sýndi miklar bætingar frá síðasta ári og Steinunn H. Hannesdóttir sýndi skurði sem sjaldgæft er að sjá hjá konum.  Mikil barátta var á milli þeirra Hermanns Páls Traustasonar og Roberto Carlos Orellana í -80 kg flokki sem lauk með sigri Hermanns þrátt fyrir að hann væri ekki skorinn að sama marki og Roberto, enda var augljóst að Hermann var ekki jafn harður á að sjá eins og hans er von og vísa. Roberto sem var mjög jafn hvað samræmi varðar og mjög vel skorinn á greinilega framtíðina fyrir sér í vaxtarrækt. Í -90 kg flokki var tvísýn barátta á milli ólíkra manna. Konráð Valur Gíslason sem varð Íslandsmeistari unglinga á síðasta ári hafði greinilega bætt á sig verulegum massa en á kostnað skurða sem voru í lakara lagi og vantaði mikið upp á að skurðir væru góðir hjá honum. Sæmundur Hildimundarson sem greinilega hafði bætt sig verulega frá síðasta ári atti kappi við Konráð en lét í minni pokann eftir að oddaatkvæði þurfti að koma til hjá dómurum. Sæmundur var vel massaður, hrikalega skorinn og samræmið með því betra sem sést hér á landi og helst að á vantaði meiri massa á kálfa hjá honum. Menn eiga því eflaust eftir að deila lengi um þennan dóm ásamt dómnum í -80 kg flokki karla ekki síst vegna þess að með þessum úrslitum í -90 voru dómarar að senda út skilaboð um að það væri nóg að vera massaköggull en skurðir og samræmi væru aukaatriði. Eins og áður sagði sigraði Gunnar danski í +90 kg flokki, Magnús Bess varð annar og Guðmundur S. Erlingsson þriðji.  Heildarúrslit: Karlar 1. Gunnar Þór Guðjónsson 2. Magnús Bess 3. Konráð Valur Gíslason   Konur 1. Lisa Hovland 2. Aðalheiður Jensen 3. María Richter   Unglingar 1. Gunnsteinn Örn Steinarsson 2. Guðmundur B. Pálmason 3. Viggó Guðmundsson   Úrslit einstakra flokka: -70 kg unglingar 1. Viggó Guðmundsson   -80 kg unglingar 1. Gunnsteinn Örn Steinarsson 2. Guðmundur B. Pálmason   -52 kg. Konur 1. Aðalheiður Jensen 2. Steinunn H. Hannesdóttir   -57 kg. Konur 1. Lisa Hovland 2. María Richter   -75 kg. Karlar 1. Patrick Jósef Chiarolanzio 2. Dominico Alex Gala 3. Steingrímur   -80 kg. Karlar 1. Hermann Páll Traustason 2. Roberto Carlos Orellana   -90 kg. Karlar 1. Konráð Valur Gíslason 2. Sæmundur Hildimundarson 3. Kristján Óskarsson   +90 kg. Karlar 1. Gunnar Þór Guðjónsson 2. Magnús Bess 3. Guðmundur S. Erlingsson