Íslandsmótið í fitness verður haldið dagana 18-19 apríl í Íþróttahöllinni á Akureyri. Keppendur hafa 15 vikur frá áramótum til undirbúnings og gera má ráð fyrir að stutt sé í að margir fari að herða æfingar og skipuleggja mataræðið með það að leiðarljósi að vera í formi þegar að mótinu kemur. Margir leggja leið sína til Akureyrar í því tilefni að fylgjast með keppninni eða taka þátt í henni og árvisst er að erfitt getur verið að fá gistingu á þessum tíma þar sem vinsælt er að bregða sér norður á skíði um Páskana. Ekki er neinn snjór fyrir norðan eins og stendur, en búast má við að engu að síður verði hann búinn að skila sér þegar að páskum kemur og því vissara að tryggja sér gistingu með góðum fyrirvara.