Í gegnum tíðina hafa hinar ýmsu fyrirmyndir ráðið ferðinni þegar útlit okkar er annars vegar. Íþróttamenn hafa ávallt verið sterkar fyrirmyndir ungs fólks og þekktir einstaklingar út tísku- eða kvikmyndaheiminum hafa jafnvel haft áhrif á heimsbyggðina. Tískufyrirsætur hafa gjarnan verið fyrirmyndir ungra kvenna sem vilja líta út eins og fyrirsæturnar í glanstímaritunum. Margt bendir til að þetta sé að breytast. Ekki það að fólk sé hætt að velja sér fyrirmyndir, heldur er fróðleikur um heilbrigða lífshætti ef til vill að skila sér í því að horaðar tískufyrirsætur eru ekki jafn ofarlega í hugum ungra kvenna og áður. Með tilkomu fitnesskeppna þar sem farinn er millivegurinn á milli vaxtarræktar og útlits grískra guða virðist unga fólkið hafa fundið sér nýjar fyrirmyndir. Útlit fitnesskeppenda er útlitið sem virðist höfða til margra í dag. Þegar meðaljóninn sem stundar æfingastöðvarnar í dag er spurður að því hvernig hann vildi helst líta út er svarið eitthvað á þá leið að vaxtarræktarútlitið sé of mikið, en vöðvamassinn þurfi að vera hóflegur, fitulítill og stæltur. Til þess að líta þannig út þarf að lifa heilbrigðum lífsstíl, bæði hvað hreyfingu og mataræði varðar. Í því þjóðfélagi sem við lifum í dag þar sem offita er að verða eitt helsta heilbrigðisvandamálið eru skilaboðin loks að komast til skila sem líkamsræktartímaritin hafa verið að básúna. Margt bendir ennfremur til þess að svokölluð heilbrigðisyfirvöld sem fram til þessa hafa haft lítið til málana að leggja nema segja mönnum að borða sittlítið af hvoru úr öllum fæðuflokkum og hreyfa sig, séu að vakna til vitundar um að til þess að ná til fólks þurfi þeir að átta sig á að þjóðin fer inn í æfingastöðvarnar til þess að stunda heilsurækt en ekki inná heilsugæslustöðvar.