Rafrettur eru það nýlegt fyrirbæri að fáar langtíma rannsóknir á áhrifum þeirra á heilsu liggja fyrir. Þeir sem reykja rafrettur hafa margir gefið sér frelsi til að reykja innan um annað fólk á opinberum stöðum og því vaknar upp sú spurning hvort efnin í gufunni sem frá þeim kemur séu hættulaus þegar þeim er andað óbeint að sér.

Fjallað er um rafrettur á Vísindavefnum en þar kemur fram að rafrettur geta verið óhollar á nokkra vegu. Bæði vegna nikótíns og annarra efna sem eru í vökvanum. Nikótínið getur aukið nikótínfíkn og þá sérstaklega meðal unglinga sem gerir þá líklegri til að verða reykingamenn. Í því sambandi er gott að rifja upp að annar hver reykingamaður lætur lífið vegna reykinga.

Rafrettugufur eru ertandi fyrir lungun og þær valda mengun í umhverfinu sem bitnar á þeim sem reykja ekki.

Efnin í rafrettugufunni hafa mælst í umhverfi þeirra sem nota rafrettur og niðurstöður blóðrannsókna sýna að nikótín og önnur efni úr gufunni mælast í blóði þeirra sem óbeint anda að sér gufunni. Það leikur því enginn vafi á að rafrettur valda ertingu og óþægindum fyrir aðra sem eru í nágrenni við rafrettureykingamann með sambærilegum hætti og óbeinar reykingar þó styrkleiki nikótíns sé minni. Formaldehýð er krabbameinsvaldandi efni sem myndast við niðurbrot á própýlen Glýkol en það er meginuppistaðan í rafrettuvökvanum og það hefur mælst í hærri styrkleika en í venjulegum sígarettureyk þegar rafrettan er við háa spennu. Það er því víðtækur misskilningur að rafrettur gefi einungis frá sér vatnsgufu.
(Vísindavefurinn: 70681)